Körfubolti

Hef ekki áhyggjur á meðan við vinnum

Lærisveinar Friðriks Ragnarssonar hafa aðeins tapað einum leik til þessa í vetur
Lærisveinar Friðriks Ragnarssonar hafa aðeins tapað einum leik til þessa í vetur Mynd/Daníel
"Ég er kátur með góðan sigur og fína vörn, en sóknarleikurinn hjá okkur er í lægð þessa dagana," sagði Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur í samtali við Vísi eftir sigur á Breiðablik í kvöld.

"Sóknarleikurinn var eins á móti Keflavík um daginn. Það er ákveðið stemmingsleysi í sókninni hjá okkur. Það var eins og við ætluðum að vera of skynsamir og gefa of margar sendingar í stað þess að skjóta bara boltanum," sagði Friðrik.

Grindvíkingar spiluðu grimma pressuvörn lengi vel í leiknum og gerðu Blikunum erfitt fyrir.

"Við vissum að þeir eru ungir og ekki með mjög marga bakverði sem geta tekið boltann upp. Við reyndum að þreyta þá aðeins af því við erum með meiri breidd og það tókst ágætlega," sagði Friðrik.

En hvað er hægt að gera til að fríska upp á sóknarleik Grindvíkinga, sem jafnan er aðalsmerki liðsins?

"Það er nú þannig með þetta lið að það getur dottið inn í hvaða hús sem er á morgun og skorað 120 stig. Ég held að stemmingin komi þegar við þurfum á því að halda, en einhvern veginn erum við ekki nægilega vel stemmdir í sókninni eins og maður hefði vonað. En á meðan við spilum góða vörn og erum að vinna, ætla ég ekki að hafa of stórar áhyggjur af því," sagði Friðrik að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×