Viðskipti erlent

Evrópa á uppleið

Miðlarar að störfum í kauphöllinni í Franfurt í Þýskalandi.
Miðlarar að störfum í kauphöllinni í Franfurt í Þýskalandi. Mynd/AFP

Næstsíðasti viðskiptadagur vikunnar á evrópskum fjármálamörkuðum hefur byrjað ágætlega en gengi hlutabréfa hefur almennt hækkað í dag. Þá hækkuðu helstu vísitölur í Asíu sömuleiðis talsvert í morgun eftir að sýnt var fram á að eftirspurn eftir varanlegum neysluvörum var meiri í Bandaríkjunum á fyrstu þremur mánuðum ársins en reiknað hafði verið með.

Þegar tölurnar lágu fyrir í Bandaríkjunum í gær jókst bjartsýni fjárfesta á horfur í efnahagslífinu og smitaði það út frá sér til lands hinnar rísandi sólar.

Nikkei-vísitalan í Bandaríkjunum hækkaði um rétt rúm þrjú prósent en vísitölur á öðrum mörkuðum í Asíu minna.

Þá hefur FTSE-vísitalan í Bretlandi hækkað um 0,82 prósent það sem af er dags, Dax-vísitalan í Þýskalandi um 0,46 prósent og Cac 40-vísitalan í Frakklandi um 0,37 prósent.

Þróunin hefur sömuleiðis verið jákvæð á norrænum hlutabréfamörkuðum. C-20 vísitalan í kauphöllinni í Kaupmannahöfn hefur hækkað um 0,32 prósent og OMX 25-vísistalan í Helsinki í Finnlandi um 0,74 prósent. Vísitalan í kauphöllinni í Svíþjóð hefur hins vegar lækkað um 0,42 prósent á sama tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×