Viðskipti innlent

Launavinnslu RÚV úthýst úr ríkishúsum

„Ríkisútvarpinu var úthýst úr Fjársýslunni í fyrra," segir Magnús Kr. Ingason, framkvæmdastjóri fjármálaþjónustufyrirtækisins Fjárvakurs.

Fjárvakur hefur frá síðustu áramótum séð um launavinnslu og annað tengt starfsemi RÚV. Áður sá Fjársýsla ríkisins um launavinnsluna.

„RÚV varð að sjá um sig sjálft eftir hlutafélagavæðinguna og fékk eitt ár til aðlögunar," segir Stefán Kjærnested varafjársýslustjóri. Það sama gildir um aðrar ríkisstofnanir sem að öðru leyti eru skyldaðar til að vera innandyra hjá Fjársýslunni.

Launavinnsla RÚV, sem varð opinbert hlutafélag í apríl á síðasta ári, var boðin út eftir að ákvörðunin lá á borðinu og kepptu tvö fyrirtæki um kökuna áður en Fjárvakur hafði betur. Fyrirtækið er eitt dótturfélaga Icelandair og sinnir vinnslu fyrir tengd félög en hefur fært út kvíarnar síðustu mánuði.

Á bilinu 4-500 starfsmenn eru á launaskrá RÚV ef allt er talið og er það um tólf prósent af umfanginu í bókum Fjárvakurs, að sögn Magnúsar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×