Normannagat Einar Már Jónsson skrifar 14. maí 2008 06:00 Um þessar mundir minnast Frakkar þess með pomp og pragt að fjörutíu ár eru liðin frá þeim atburðum sem kenndir eru við „maí 68"; hefur allt verið á öðrum endanum þess vegna í nokkrar vikur og allar horfur eru á því að svo verði enn um stund, a.m.k. þangað til yfirstandandi maímánuður er allur. Reyndar kom í ljós í rækilegri könnun sem kennarar og sálfræðingar gerðu að mikill meirihluti nemenda í skólum landsins gat alls ekki svarað spurningunni: „hvenær var maí 68?" Kannske finnst ýmsum ástæðulaust að krefjast svo mikillar söguþekkingar af ungviðinu, en hvað sem því líður er von til að slík fáfræði verði brátt úr sögunni. Fyrir skömmu las ég í blaði að áttatíu og átta bækur væru nú komnar út um þessa atburði eða þá á leiðinni, og munu þá ekki vera taldar ýmsar endurútgáfur; flest málsmetandi blöð og tímarit gefa út sérhefti, sýndar eru sjónvarpsmyndir, gamlar og nýjar, sérstakar dagskrár eru fluttar í útvarpsstöðvum og þar fram eftir götunum. Ekki verður nú annað séð en mikill einhugur ríki um þessa atburði fjörutíu árum síðar. Þegar Frakkar voru spurðir að því í skoðanakönnun hvoru megin þeir hefðu verið í götubardögunum í maí 68 sögðu sjötíu og sjö af hundraði að þeir hefðu verið með stúdentum en fjórtán af hundraði að þeir hefðu verið með lögreglunni. Tveir menn sem voru sitt hvoru megin við götuvígin, Daniel Cohn-Bendit leiðtogi stúdenta og Maurice Grimaud fyrrverandi lögreglustjóri Parísar, nú hátt á tíræðisaldri, hittust nýlega í sjónvarpssal og ræddu málin í mesta bróðerni. En það hefur komið fram að lögreglustjórinn var hálft í hvoru á bandi stúdenta, þótt það færi ekki hátt á sínum tíma. Þannig rísa nú hátíðahöldin fjöllunum hærra. En í frönskum veislum sem standa lengi er gjarnan siður, að þegar allt stendur sem hæst gera menn smáhlé og steypa í sig svo sem einu glasi af lútsterku brennivíni. Oftast er til þess haft eplabrennivín frá Normandí nálægt áttatíu prósent, og eftir því er þessi siður kallaður, hann heitir sem sé „Normannagat". Þess vegna var við því að búast að í hátíðahöldunum út af maí 68 stöldruðu menn einhvern tíma við og tækju upp þennan sama sið, og það gerðist. Snemma í maí rann nefnilega upp fyrir mönnum að nú átti Nikulás Sarkozy eins árs afmæli á forsetastól, það var sem sé ár liðið síðan hann vann sinn mikla sigur í forsetakosningum og tók við embætti með stóryrtum yfirlýsingum. Og menn gerðu smáhlé og innbyrtu þetta beiska brennivín, þetta forsetabrugg. Eins og búast mátti við í Normannagati var það ekki laust við grettur. Eitt vikublaðið birti mynd af fúlum Sarkozy með áletruninni: „Andskotinn, fjögur ár enn...", en annað blað reiknaði út hvað fjögur ár væru margir dagar, svo menn gætu farið að telja dag frá degi hve langt væri eftir. En menn bentu einnig á það að forsetinn, eða „Napóleon Narcissus" eins og sumir kalla hann, hafi að vissu leyti haldið sín kosningaloforð: hann lofaði því sem hann kallaði „rupture" á frönsku, en það er „rof" á íslensku og felast í því alger þáttaskil eða kúvending í pólitíkinni, og ekki er annað hægt að segja en það hafi orðið mikil rof, á mörgum sviðum. Það urðu rof í stjórnarstefnu og -stíl. Sarkozy hélt upp á kosningasigurinn með mikilli veislu í dýrasta og fínasta veitingastað Parísar, fór svo að hvíla sig í lystisnekkju sem einn vinur hans, miljarðamæringur eins og nú er sagt, lét honum í té. Þegar hann tók við völdum var það eitt hans fyrsta verk að gera breytingar á reglum um skattheimtu sem höfðu í för með sér miklar skattaívilnanir fyrir auðugasta hluta þjóðarinnar. Þá varð ljóst að Sarkozy ætlaði ekki síst að vera forseti millanna, sem ýmsum fannst að hefðu orðið útundan í forsetatíð fyrirrennaranna. Það urðu rof í persónulegum stíl. Með sínum sviptingasömu hjónabandsmálum komst Sarkozy þangað sem enginn fyrirrennari hans hafði komist, sem sé á forsíðu ákveðinna vikublaða, „Closer" og annarra slíkra. Um þennan nýja stíl hafa franskir blaðamenn notað hljóðgerfinginn „bling bling", hvað sem það á svo sem að merkja. Svo urðu mikil rof milli forsetans og kjósenda. Á stuttum tíma hafa vinsældir hans hrapað niður svo nú er ekki meira en þriðjungur landsmanna sáttur við hann, og vita menn ekki dæmi til slíks hruns áður. En þetta er ekki allt of sumt. Fyrir skömmu urðu aftur rof og nú milli „gamla" og „nýja" Sarkozys. Því skyndilega birtist forsetinn í sjónvarpinu, viðurkenndi alls kyns mistök, einkum hvað snerti tjáningu og stíl, og lofaði bót og betrun. Hann lét ekki sitja við orðin tóm, því nú er hann orðinn alvarlegur, jafnvel hlédrægur og orðvar mjög. Telja sumir að Carla Bruni passi vel upp á hann. Þá ættu menn sem sé að vera ánægðir og geta snúið sér aftur að maí 68 veisluhöldunum. En það gildir ekki um alla. Skopteiknarar og háðfuglar alls kyns sitja nú uppi með sárt ennið og kveina hástöfum: „Gefið okkur gamla Sarko aftur". Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sigurður Ingi og óverðtryggingin Hjalti Þórisson Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun Af hverju ég styð Samfylkinguna – og Hannes Sigurbjörn Jónsson Ásbjörn Þór Ásbjörnsson Skoðun „Útlendingar“ og „þetta fólk“ Jasmina Vajzović Crnac Skoðun Flokkur fólksins vill efla byggð um land allt! Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun Varnarveggur gegn vonbrigðum Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun Misskilin mannúð í hælisleitendamálum Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir Skoðun
Um þessar mundir minnast Frakkar þess með pomp og pragt að fjörutíu ár eru liðin frá þeim atburðum sem kenndir eru við „maí 68"; hefur allt verið á öðrum endanum þess vegna í nokkrar vikur og allar horfur eru á því að svo verði enn um stund, a.m.k. þangað til yfirstandandi maímánuður er allur. Reyndar kom í ljós í rækilegri könnun sem kennarar og sálfræðingar gerðu að mikill meirihluti nemenda í skólum landsins gat alls ekki svarað spurningunni: „hvenær var maí 68?" Kannske finnst ýmsum ástæðulaust að krefjast svo mikillar söguþekkingar af ungviðinu, en hvað sem því líður er von til að slík fáfræði verði brátt úr sögunni. Fyrir skömmu las ég í blaði að áttatíu og átta bækur væru nú komnar út um þessa atburði eða þá á leiðinni, og munu þá ekki vera taldar ýmsar endurútgáfur; flest málsmetandi blöð og tímarit gefa út sérhefti, sýndar eru sjónvarpsmyndir, gamlar og nýjar, sérstakar dagskrár eru fluttar í útvarpsstöðvum og þar fram eftir götunum. Ekki verður nú annað séð en mikill einhugur ríki um þessa atburði fjörutíu árum síðar. Þegar Frakkar voru spurðir að því í skoðanakönnun hvoru megin þeir hefðu verið í götubardögunum í maí 68 sögðu sjötíu og sjö af hundraði að þeir hefðu verið með stúdentum en fjórtán af hundraði að þeir hefðu verið með lögreglunni. Tveir menn sem voru sitt hvoru megin við götuvígin, Daniel Cohn-Bendit leiðtogi stúdenta og Maurice Grimaud fyrrverandi lögreglustjóri Parísar, nú hátt á tíræðisaldri, hittust nýlega í sjónvarpssal og ræddu málin í mesta bróðerni. En það hefur komið fram að lögreglustjórinn var hálft í hvoru á bandi stúdenta, þótt það færi ekki hátt á sínum tíma. Þannig rísa nú hátíðahöldin fjöllunum hærra. En í frönskum veislum sem standa lengi er gjarnan siður, að þegar allt stendur sem hæst gera menn smáhlé og steypa í sig svo sem einu glasi af lútsterku brennivíni. Oftast er til þess haft eplabrennivín frá Normandí nálægt áttatíu prósent, og eftir því er þessi siður kallaður, hann heitir sem sé „Normannagat". Þess vegna var við því að búast að í hátíðahöldunum út af maí 68 stöldruðu menn einhvern tíma við og tækju upp þennan sama sið, og það gerðist. Snemma í maí rann nefnilega upp fyrir mönnum að nú átti Nikulás Sarkozy eins árs afmæli á forsetastól, það var sem sé ár liðið síðan hann vann sinn mikla sigur í forsetakosningum og tók við embætti með stóryrtum yfirlýsingum. Og menn gerðu smáhlé og innbyrtu þetta beiska brennivín, þetta forsetabrugg. Eins og búast mátti við í Normannagati var það ekki laust við grettur. Eitt vikublaðið birti mynd af fúlum Sarkozy með áletruninni: „Andskotinn, fjögur ár enn...", en annað blað reiknaði út hvað fjögur ár væru margir dagar, svo menn gætu farið að telja dag frá degi hve langt væri eftir. En menn bentu einnig á það að forsetinn, eða „Napóleon Narcissus" eins og sumir kalla hann, hafi að vissu leyti haldið sín kosningaloforð: hann lofaði því sem hann kallaði „rupture" á frönsku, en það er „rof" á íslensku og felast í því alger þáttaskil eða kúvending í pólitíkinni, og ekki er annað hægt að segja en það hafi orðið mikil rof, á mörgum sviðum. Það urðu rof í stjórnarstefnu og -stíl. Sarkozy hélt upp á kosningasigurinn með mikilli veislu í dýrasta og fínasta veitingastað Parísar, fór svo að hvíla sig í lystisnekkju sem einn vinur hans, miljarðamæringur eins og nú er sagt, lét honum í té. Þegar hann tók við völdum var það eitt hans fyrsta verk að gera breytingar á reglum um skattheimtu sem höfðu í för með sér miklar skattaívilnanir fyrir auðugasta hluta þjóðarinnar. Þá varð ljóst að Sarkozy ætlaði ekki síst að vera forseti millanna, sem ýmsum fannst að hefðu orðið útundan í forsetatíð fyrirrennaranna. Það urðu rof í persónulegum stíl. Með sínum sviptingasömu hjónabandsmálum komst Sarkozy þangað sem enginn fyrirrennari hans hafði komist, sem sé á forsíðu ákveðinna vikublaða, „Closer" og annarra slíkra. Um þennan nýja stíl hafa franskir blaðamenn notað hljóðgerfinginn „bling bling", hvað sem það á svo sem að merkja. Svo urðu mikil rof milli forsetans og kjósenda. Á stuttum tíma hafa vinsældir hans hrapað niður svo nú er ekki meira en þriðjungur landsmanna sáttur við hann, og vita menn ekki dæmi til slíks hruns áður. En þetta er ekki allt of sumt. Fyrir skömmu urðu aftur rof og nú milli „gamla" og „nýja" Sarkozys. Því skyndilega birtist forsetinn í sjónvarpinu, viðurkenndi alls kyns mistök, einkum hvað snerti tjáningu og stíl, og lofaði bót og betrun. Hann lét ekki sitja við orðin tóm, því nú er hann orðinn alvarlegur, jafnvel hlédrægur og orðvar mjög. Telja sumir að Carla Bruni passi vel upp á hann. Þá ættu menn sem sé að vera ánægðir og geta snúið sér aftur að maí 68 veisluhöldunum. En það gildir ekki um alla. Skopteiknarar og háðfuglar alls kyns sitja nú uppi með sárt ennið og kveina hástöfum: „Gefið okkur gamla Sarko aftur".
Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun
Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun