Fastir pennar

Spurning um aga

Þorsteinn Pálsson skrifar

Efnahagsráðuneyti var aðeins hluti af stjórnarráðinu um skamman tíma fyrir hálfri öld. Sú hefð hefur skapast að líta á forsætisráðherrann sem efnhagsráðherra. Það á rætur að rekja til verðbólgutíðarinnar þegar samhæfa þurfti aðgerðir í efnahags- og kjaramálum á þriggja mánaða fresti.

Víðast hvar eru efnahagsmálin eðli máls samkvæmt á ábyrgðarsviði fjármálaráðherrans. Í nútímanum beita forsætisráðherrar sér mest á sviði utanríkismála, menntamála og heilbrigðismála nema í verulegri efnahagslegri ágjöf. Það á við um þessar mundir. Lítil frétt frá Vegagerðinni í síðustu viku gefur hins vegar tilefni til að beina athyglinni að ábyrgð einstakra ráðherra í þessum efnum.

Atvik málsins eru þau að Vegagerðin samþykkti kröfu frá atvinnurekendum að vísitölubinda verksamninga. Fyrir því eru augljós hagkvæmnirök fyrir verktaka. Þeir geta boðið í verk óháð verðbólguáhættu. Þetta léttir líka störf þeirra embættismanna sem meta eiga tilboð í einstök verk. Þeir þurfa ekki að glíma við verktaka í vanda vegna óraunhæfra tilboða. Þetta er skilvirkt og sjálfvirkt verðhækkunarkerfi.

Á tvennt er að líta í þessu samhengi. Eitt er að Vegagerðin hefur ekki gert grein fyrir því hvort framkvæmdir verða skornar niður vegna ófyrirséðra verðhækkana sem verktakar fá tryggðar með sjálfvirkum hætti. Samgönguráðherra þarf þar af leiðandi að gera grein fyrir því hvort hann lítur svo á að hann geti gengið að sjálfvirkum aukafjárveitingum vísum til þess að standa undir þessum sjálfvirku verðhækkunum.

Annað atriði í þessu samhengi lýtur að grundvallarreglu sem ríkisstjórnin sýnist hafa unnið eftir fram til þessa. Á sínum tíma var það lykilatriði í viðnámsaðgerðum gegn verðbógu að rjúfa flestar sjálfvirkar verðbætur. Þó að fordæmi megi finna fyrir tímabundinni undantekningu frá þessari reglu verður ekki á það fallist að ein vitlaus ákvörðun réttlæti sjálfkrafa aðra.

Tvískinnungur sem þessi kallar þar af leiðandi á útskýringar. Hvernig getur samgönguráðherrann varið verðtryggingu í verksamningum við atvinnurekendur á sama tíma og hann ber eins og aðrir ráðherrar pólitíska ábyrgð á þeirri stefnu að neita launþegum um það sama í kjarasamningum?

Þetta einstaka mál er vitaskuld ekki stórt í sniðum og ríður ekki eitt og sér baggamun um skynsamlega fjármálastjórn. En það hlýtur að vekja upp spurningar um aga við stjórn ríkisfjármála og efnahagsmála. Fjármálaráðherra kemst ekki hjá að gera grein fyrir hvað réttlæti að gera slíka sjálfvirka samninga um einn kostnaðarþátt fjárlaganna en ekki aðra. Hann þarf að svara því hvort aðrar ríkisstofnanir geti leikið sama leikinn.

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Hún getur líka verið með öllu skaðlaus. Hinu geta menn ekki lokað augunum fyrir að spurningar hljóta að vakna hvar draga á markalínurnar Þegar einu sinni er farið að gefa eftir. Öllum má vera ljóst og þar á meðal samgönguráðherra að víðtækar sjálfvirkar vísitölutengingar í opinberum rekstri eru við ríkjandi aðstæður í efnahagsmálum vísasti vegurinn til þess að innleiða á ný víxlhækkanir verðlags og launa. Gerist það verður verðbólguhjólið óstöðvandi.

Hvernig sem á þetta litla mál er litið kallar það hvað sem öðru líður á skýr svör við þeirri spurningu: Hvað má verðtryggja og hvað ekki?






×