Helvíti Einar Már Jónsson skrifar 12. mars 2008 06:00 Þessa daga er helvíti opið í París og til sýnis fyrir almenning, einu skilyrðin eru þau að menn hafi náð sextán ára aldri. Einfaldast er að taka neðanjarðarlest nr. 14 til að komast þangað. Frá næst síðustu stöðinni á austurleið er gengið yfir brú, yfir í nýju þjóðarbókhlöðuna sem kennd er við Mitterrand og þar er haldið niður á við eftir einhvers konar langri og skuggalegri rennu. Biðraðirnar eru jafnan langar, en helvíti er greinilega vítt inngöngu því maður kemst fljótlega í áfangastað. Þetta „helvíti" sem hér um ræðir er hefðbundið nafn á sérstakri deild í þjóðarbókhlöðunni, deildinni þar sem geymd voru rit og myndir af ýmsu tagi sem voru kennd við „klám" og ekki talið rétt að almenningur hefði beinan og greiðan aðgang að. Heimildum ber ekki alveg saman um það hvort helvíti var sérstakur staður í gömlu byggingu bókhlöðunnar eða hvort það var einungis einhver ákveðin númeraröð. Um slík mál hafa guðfræðingar löngum verið ósammála. En víst er, að það var sett á stofn snemma á 19. öld, þegar borgaraleg siðavendi var óðum að færast í aukana, og stóð síðan lengi með miklum blóma. Það var reyndar ekki með öllu lokað, menn gátu sótt um að fá að lesa þar eitt eða annað og var mikilvægt að greina skilmerkilega frá aldri sínum á umsókninni. Síðan réðu einhverjir yfirmenn því hvort leyfið var veitt eða ekki. Ljóðskáldið Guillaume Apollinaire fékk slíkt leyfi og notaði tækifærið til að taka saman skrá yfir helvíti sem kom út á prenti 1913; í leiðinni bætti hann nokkrum ritum við deildina frá eigin brjósti. Eftir óeirðirnar miklu í maí 1968 var helvíti síðan lokað sem slíku og bókunum skipt milli annarra deilda, þar sem menn höfðu að þeim frjálsan aðgang, og var það athyglisverður ávöxtur „byltingarinnar". Nokkrum árum síðar var það þó stofnsett á ný, fræðimönnum og öðrum lesendum til hægðarauka, svo þeir gætu gengið að þessum bókmenntum á einum stað. En ekkert af þeim mun nú lengur vera bannað, og er helvíti því ekki lengur helvíti heldur n.k. búðir þar sem fræðimenn geta frílistað sig. Þessi sýning sem nú stendur yfir á innviðum í hinu neðra er því ekki í sjálfu sér nein stórbylting. Kannske var það athyglisverðast hve sýningargestir, sem voru á öllum aldri og af báðum kynjum, voru virðulegir og grafalvarlegir og skoðuðu það sem fyrir augu bar í djúpri þögn, líkast því sem þeir væru að skoða sýningu á trúarlegri list. Þarna gat þó að líta allfjölskrúðugar sjónhverfingar. Um leið og inn var komið blöstu við sýningargestum stórar og listilega vel gerðar koparstungur af hvílubrögðum sögulegra persóna með vöðva að hætti Michaelangelos, þar voru Akkiles og Brísedóttir (úr 1. bók Ilionskviðu), Dido og Eneas (úr 4. bók Eneasarkviðu), Anton og Kleopatra (væntanlega úr Plútark fremur en Shakespeare) o.s.frv. Svo voru nokkrir glerskápar helgaðir hinni frægu skáldsögu „Teresa gerist heimspekingur", eftir óþekktan höfund, sem kom út 1748 en sagt er að hafi verið fyrsta bókin sem hlaut þann heiður að vera dæmd til vistar í helvíti þegar það var sett á stofn. Nú þykir hún merk heimild um hugmyndir og umræður á upplýsingaöld og er gefin út í kiljubroti með fræðilegum skýringum. Þegar lengra kom voru ýmis dæmi um það hvernig hreint klám gat verið notað í pólitískum tilgangi. Tvær persónur í sögu Frakklands urðu einkum fyrir barðinu á slíkum árásum: Mazarin kardínáli á 17. öld og svo Marie-Antoinette á hinni 18. En hefðin varð langlíf. Frá tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar gat þarna að líta lista sem var væntanlega runninn undan rifjum byltingarmanna og prestahatara og taldi upp þá presta sem gómaðir höfðu verið á amorsþingi með portkonum, ásamt nákvæmum upplýsingum um stað og stund, nafn konunnar og sitthvað fleira. Frá 20. öld eru líka til dæmi en þau voru ekki á sýningunni. Á tjaldi voru sýnd atriði úr kvikmyndinni „Nunnan" eftir Jacques Rivette frá 1967, sem dæmi um það hvað skilgreiningin á „klámi" getur verið erfið og auðvelt að misnota hana ef svo ber undir. Þessi mynd var gerð eftir hinni sígildu skáldsögu Diderots frá 18. öld og mjög dramatísk en gersneydd öllu því sem hægt væri að kalla klám. Eigi að síður var hún bönnuð á sínum tíma, aðallega að því er virtist til að þóknast íhaldssömum kaþólskum mönnum sem litu á efnishyggjumanninn Diderot nánast sem djöfulinn. Þegar gengið var út úr sýningunni tók við bókaverslun, þar sem m.a. var hægt að kaupa nútímaútgáfur af ýmsum þeim ritum sem áður áttu vist í helvíti, ásamt öðru. Þar bar fyrir mín augu konu sem var að kaupa eitt af þessum gömlu og bönnuðu ritum, en svo leit hún flóttalega í kringum sig, greip aðra bók, faldi hana vandlega undir klámritinu svo enginn sæi hana, og fór með hvort tveggja að kassanum. Það kom upp í mér rannsóknarblaðamaðurinn svo ég gáði að því hvaða bók konan væri að fela svona vendilega. Það var rit sem nefndist „Hvernig á að sigrast á feimni". „Tempora mutantur, nos et mutamur in illis", hugsaði ég. Tímarnir breytast og mennirnir með. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Misskilin mannúð í hælisleitendamálum Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Sigurður Ingi og óverðtryggingin Hjalti Þórisson Skoðun Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun „Útlendingar“ og „þetta fólk“ Jasmina Vajzović Crnac Skoðun Af hverju ég styð Samfylkinguna – og Hannes Sigurbjörn Jónsson Ásbjörn Þór Ásbjörnsson Skoðun Flokkur fólksins vill efla byggð um land allt! Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun Varnarveggur gegn vonbrigðum Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun
Þessa daga er helvíti opið í París og til sýnis fyrir almenning, einu skilyrðin eru þau að menn hafi náð sextán ára aldri. Einfaldast er að taka neðanjarðarlest nr. 14 til að komast þangað. Frá næst síðustu stöðinni á austurleið er gengið yfir brú, yfir í nýju þjóðarbókhlöðuna sem kennd er við Mitterrand og þar er haldið niður á við eftir einhvers konar langri og skuggalegri rennu. Biðraðirnar eru jafnan langar, en helvíti er greinilega vítt inngöngu því maður kemst fljótlega í áfangastað. Þetta „helvíti" sem hér um ræðir er hefðbundið nafn á sérstakri deild í þjóðarbókhlöðunni, deildinni þar sem geymd voru rit og myndir af ýmsu tagi sem voru kennd við „klám" og ekki talið rétt að almenningur hefði beinan og greiðan aðgang að. Heimildum ber ekki alveg saman um það hvort helvíti var sérstakur staður í gömlu byggingu bókhlöðunnar eða hvort það var einungis einhver ákveðin númeraröð. Um slík mál hafa guðfræðingar löngum verið ósammála. En víst er, að það var sett á stofn snemma á 19. öld, þegar borgaraleg siðavendi var óðum að færast í aukana, og stóð síðan lengi með miklum blóma. Það var reyndar ekki með öllu lokað, menn gátu sótt um að fá að lesa þar eitt eða annað og var mikilvægt að greina skilmerkilega frá aldri sínum á umsókninni. Síðan réðu einhverjir yfirmenn því hvort leyfið var veitt eða ekki. Ljóðskáldið Guillaume Apollinaire fékk slíkt leyfi og notaði tækifærið til að taka saman skrá yfir helvíti sem kom út á prenti 1913; í leiðinni bætti hann nokkrum ritum við deildina frá eigin brjósti. Eftir óeirðirnar miklu í maí 1968 var helvíti síðan lokað sem slíku og bókunum skipt milli annarra deilda, þar sem menn höfðu að þeim frjálsan aðgang, og var það athyglisverður ávöxtur „byltingarinnar". Nokkrum árum síðar var það þó stofnsett á ný, fræðimönnum og öðrum lesendum til hægðarauka, svo þeir gætu gengið að þessum bókmenntum á einum stað. En ekkert af þeim mun nú lengur vera bannað, og er helvíti því ekki lengur helvíti heldur n.k. búðir þar sem fræðimenn geta frílistað sig. Þessi sýning sem nú stendur yfir á innviðum í hinu neðra er því ekki í sjálfu sér nein stórbylting. Kannske var það athyglisverðast hve sýningargestir, sem voru á öllum aldri og af báðum kynjum, voru virðulegir og grafalvarlegir og skoðuðu það sem fyrir augu bar í djúpri þögn, líkast því sem þeir væru að skoða sýningu á trúarlegri list. Þarna gat þó að líta allfjölskrúðugar sjónhverfingar. Um leið og inn var komið blöstu við sýningargestum stórar og listilega vel gerðar koparstungur af hvílubrögðum sögulegra persóna með vöðva að hætti Michaelangelos, þar voru Akkiles og Brísedóttir (úr 1. bók Ilionskviðu), Dido og Eneas (úr 4. bók Eneasarkviðu), Anton og Kleopatra (væntanlega úr Plútark fremur en Shakespeare) o.s.frv. Svo voru nokkrir glerskápar helgaðir hinni frægu skáldsögu „Teresa gerist heimspekingur", eftir óþekktan höfund, sem kom út 1748 en sagt er að hafi verið fyrsta bókin sem hlaut þann heiður að vera dæmd til vistar í helvíti þegar það var sett á stofn. Nú þykir hún merk heimild um hugmyndir og umræður á upplýsingaöld og er gefin út í kiljubroti með fræðilegum skýringum. Þegar lengra kom voru ýmis dæmi um það hvernig hreint klám gat verið notað í pólitískum tilgangi. Tvær persónur í sögu Frakklands urðu einkum fyrir barðinu á slíkum árásum: Mazarin kardínáli á 17. öld og svo Marie-Antoinette á hinni 18. En hefðin varð langlíf. Frá tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar gat þarna að líta lista sem var væntanlega runninn undan rifjum byltingarmanna og prestahatara og taldi upp þá presta sem gómaðir höfðu verið á amorsþingi með portkonum, ásamt nákvæmum upplýsingum um stað og stund, nafn konunnar og sitthvað fleira. Frá 20. öld eru líka til dæmi en þau voru ekki á sýningunni. Á tjaldi voru sýnd atriði úr kvikmyndinni „Nunnan" eftir Jacques Rivette frá 1967, sem dæmi um það hvað skilgreiningin á „klámi" getur verið erfið og auðvelt að misnota hana ef svo ber undir. Þessi mynd var gerð eftir hinni sígildu skáldsögu Diderots frá 18. öld og mjög dramatísk en gersneydd öllu því sem hægt væri að kalla klám. Eigi að síður var hún bönnuð á sínum tíma, aðallega að því er virtist til að þóknast íhaldssömum kaþólskum mönnum sem litu á efnishyggjumanninn Diderot nánast sem djöfulinn. Þegar gengið var út úr sýningunni tók við bókaverslun, þar sem m.a. var hægt að kaupa nútímaútgáfur af ýmsum þeim ritum sem áður áttu vist í helvíti, ásamt öðru. Þar bar fyrir mín augu konu sem var að kaupa eitt af þessum gömlu og bönnuðu ritum, en svo leit hún flóttalega í kringum sig, greip aðra bók, faldi hana vandlega undir klámritinu svo enginn sæi hana, og fór með hvort tveggja að kassanum. Það kom upp í mér rannsóknarblaðamaðurinn svo ég gáði að því hvaða bók konan væri að fela svona vendilega. Það var rit sem nefndist „Hvernig á að sigrast á feimni". „Tempora mutantur, nos et mutamur in illis", hugsaði ég. Tímarnir breytast og mennirnir með.
Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun
Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun