Tökumaðurinn Óttar Guðnason hefur verið fenginn til að kvikmynda framhald hasarmyndarinnar Point Break sem skartaði Patrick Swayze og Keanu Reeves í aðalhlutverkum.
Óttar staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið en vildi annars ekki tjá sig um verkefnið að svo stöddu.
Talið er að Hayden Christensen, sem sló í gegn sem Anakin í Star Wars-myndunum, verði í aðalhlutverkinu. Myndin gerist tuttugu árum á eftir þeirri fyrri og leikur Hayden brimbrettakappa og löggu sem kemst á slóðir glæpagengis.
Tökur fara að mestu leyti fram á Bali síðar á árinu. Handritshöfundur verður W. Peter Iliff, sem samdi handritið að fyrri myndinni, en óvíst er hvort Swayze eða Reeves komi aftur við sögu.
Leikstjóri myndarinnar, sem kallast Point Break:Indo, verður Jan De Bont sem á að baki myndir á borð við Speed, Twister og Tomb Raider 2. Óttar og Jan De Bont hafa unnið töluvert saman við auglýsingagerð undanfarin ár og gerðu þeir meðal annars saman auglýsingu fyrir Goodyear-dekkjaframleiðandann hér á landi.
Upphaflega stóð til að Óttar tæki upp hasarmyndina Stopping Power í leikstjórn De Bont en henni hefur verið slegið á frest og í staðinn ætla þeir að einbeita sér að framhaldi Point Break.
Óttar er einn færasti kvikmyndatökumaður Íslands. Á meðal verkefna hans í gegnum tíðina eru myndirnar A Little Trip to Heaven og Run for Her Life, báðar í leikstjórn Baltasars Kormáks.
Sú síðarnefnda er væntanleg í kvikmyndahús á næsta ári, rétt eins og Point Break:Indo.