Viðskipti innlent

Veltumet á skuldabréfamarkaði alla vikuna

Veltumet var slegið á skulda- og íbúðabréfamarkaði í gær. Þetta var jafnframt þriðji dagurinn í röð sem metið er slegið, að því er fram kemur í Morgunkorni greiningardeildar Glitnis. Þá var veltumet slegið með veltu ríkisbréfa á mánudag og vantaði aðeins 300 milljónir upp á að metið sem slegið var á mánudag hefði verið náð.

Greiningardeildin segir að búast megi við að viðskipti með skuldabréf verði sveiflukennd næstu vikur og mánuði og muni mikilvægir þættir, svo sem væntingar um stýrivexti gegna stóru hlutverki.

„Við framkvæmd peningastefnunnar á næstunni munu vegast á mikill verðbólguþrýstingur, aðallega til skamms tíma og hjöðnun eftirspurnar, jafnvel hraðari en áður var reiknað með, vegna verra aðgengis að lánsfé og eignaverðslækkunar. Ýmislegt bendir til að hjöðnun eftirspurnar verði hraðari en áður hefur verið reiknað með. Undanfarna daga hafa væntingar um hraðari hjöðnun greinilega verið sterkustu áhrifavaldarnir á skuldbréfamarkaði. Líklegt er að einnig séu til fjárfestar sem eru á öndverðum meiði og telja að Seðlabankinn muni vilja sjá þess afdráttarlaus merki að mesti verðbólguþrýstingurinn sé liðinn hjá áður en þeir hefja lækkunarferli stýrivaxta,“ segir í Morgunkorninu.

Morgunkorn Glitnis






Fleiri fréttir

Sjá meira


×