Viðskipti innlent

Skellur á gengi Flögu

Unnið að smíði svefnmælingatækis hjá Flögu. Gengi fyrirtækisins hefur hríðfallið í vikunni.
Unnið að smíði svefnmælingatækis hjá Flögu. Gengi fyrirtækisins hefur hríðfallið í vikunni. Mynd/E.Ól.

Gengi fjölmargra félaga í Kauphöllinni tók dýfu í dag, mest í Flögu sem féll um 13,85 prósent. Þetta er annar dagurinn í röð sem gengi bréfanna fellur en markaðsvirði félagsins hefur fallið um rúm 34 prósent frá áramótum.

Næstamesta lækkunin var á gengi bréfa í færeyska olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum sem fór niður um tæp átta prósent. Á eftir fylgdi Icelandic Group, sem féll um tæp sjö prósent, FL Group, sem féll um 5,47 prósent, og SPRON sem féll um 4,22 prósent. Þá féll Exista um 3,66 prósent en önnur fyrirtæki minna.

Einungis gengi bréfa í Century Aluminum, Eik banka og stoðtækjafyrirtækinu Össuri hækkaði yfir daginn.

Úrvalsvísitalan lækkaði talsvert um miðjan dag en jafnaði sig nokkkuð eftir því sem á leið og nemur dagslækkun hennar 0,92 prósentum. Vísitalan stendur í 5.451 stigi og hefur lækkað um 13,7 prósent frá áramótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×