Körfubolti

Óvæntur sigur Stjörnunnar á Njarðvík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jovan Zdravevski skoraði fimmtán stig fyrir Stjörnuna í kvöld.
Jovan Zdravevski skoraði fimmtán stig fyrir Stjörnuna í kvöld. Mynd/Anton

Stjarnan vann í kvöld átta stiga sigur á Njarðvík, 87-79, í Iceland Express deild karla í körfubolta en fjórir leikir voru á dagskrá í kvöld.

Þór frá Akureyri gerði góða ferð til Hveragerðis þar sem liðið lagði heimamenn í Hamri, 93-89. Þá vann Grindavík sömuleiðis góðan útisigur á Skallagrími, 95-88, og Snæfell vann Tindastól á Sauðárkróki, 87-71.

Grindavík er nú komið upp að hlið KR í öðru sæti deildarinnar með 26 stig, tveimur á eftir Keflavík. Bæði KR og Keflavík eiga reyndar leik til góða.

Skallagrímur er enn í fjórða sæti með 20 stig og Njarðvík og Snæfell eru nú með átján. Þór er svo með fjórtán stig í sjöunda sæti og það er hörð samkeppni um áttunda sætið þar sem ÍR, Tindastóll og Stjarnan eru öll með tólf stig. ÍR á reyndar leik til góða.

Jarret Stephens lék sinn fyrsta leik með Stjörnunni í kvöld og átti skínanandi góðan leik en hann skoraði 20 stig og tók tólf fráköst. Dimitar Karadzovski var stigahæstur Stjörnumanna með 26 stig en Stjarnan hafði þriggja stiga forystu í hálfleik, 39-36.

Hjá Njarðvík var Damon Bailey stigahæstur með 22 stig og tók þar að auki níu fráköst. Jóhann Árni Ólafsson skoraði átján stig fyrir Njarðvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×