Bakþankar

Jón Sigurðsson og olíuhreinsun

Karen Dröfn Kjartansdóttir skrifar

Lengi trúðu Íslendingar að umheimurinn teldi okkur sannfærða umhverfisverndarsinna. Í útlöndum væri Ólafur Ragnar Grímsson, skapari hitaveitunnar, á hvers manns vörum; hér ækju allir á vetnisbílum, hús væru kynt með heitu vatni fyrst og fremst af umhverfisástæðum og sótbölvandi ýtustjórar, með þriggja daga skegg og sigggrónar hendur, legðu lykkju á leið sína til að hlífa álfum og huldufólki. Já, Íslendingar eru bragðarefir.

Það er kraftaverki líkast að okkur hafi tekist að halda í þessa sjálfsmynd á sama tíma og við veiðum hvali, drepum ísbirni, reisum álver, sýnum einlægan áhuga á því að byggja olíuhreinsunarstöðvar, eigum eyðslufrekasta bílaflota í heimi og höfum samið popplag gegn Grænfriðungum. Það er því ekki að undra þótt greinilegt sé að lygavefur þjóðarinnar sé farin að trosna.

Nú láta margir eins og fullvíst sé að Íslendingar farist allir úr eymd ef við reisum ekki olíuhreinsistöð við Arnarfjörð sem allra fyrst. Það þarf ekki spádómsgáfu til að átta sig á því að mjög fljótlega mun einhver halda því fram að því miður sé bara málið komið það langt að ekki sé hægt að hætta við það úr þessu.

Ég velti því fyrir mér hvað Jón Sigurðsson, sem Íslendingar kalla gjarnan forseta, hefði sagt um hugleiðingarnar um olíuhreinsistöðina væri hann uppi nú. Honum væri jú málið sérlega skylt því stöðina á að reisa við Arnarfjörð en í þeim firði stendur Hrafnseyri þar sem Jón fæddist og ólst upp. Hér á árum áður unnu Íslendingar Jóni svo mjög að ekki þótti annað hæfa en að fæðingardagur hans yrði þjóðhátíðardagur. Einnig má nefna að Hrafn sá sem eyrin er nefnd eftir er talinn fyrsti lærði læknir landsins en á Sturlungaöld framkvæmdi hann þar minniháttar uppskurði og þykir ekki fráleitt að halda því fram að í Arnarfirði hafi staðið fyrsta sjúkrahús landans.

Það er ég viss um að þessir fornu frumkvöðlar myndu ekki kunna því vel að ónefndum rússnesknum auðjöfrum stæði til boða að reisa olíuhreinsistöð í Arnarfirði. Einhverjir gætu vissulega sagt að þessir tveir menn hefðu fyrst og fremst hugsað um hag og sjálfstæði þjóðarinnar. Hefðu þeir talið þeim hagsmunum best varið í faðmi Rússa hefðu þeir valið þann kostinn. Stóriðjulausu Vestfirðingarnir sem nú láta eins og óbyrja sem skyndilega eygir von á að eignast barn ættu ef til vill fyrst að líta til þeirrar þróunar sem orðið hefur á Austfjörðum. Fyrir austan var jú svolítið gaman á meðan á uppbyggingunni stóð og verksmiðjan var að taka til starfa en nú hafa skyndilega allir misst áhuga á Austfirðingum og álverinu. Flugfélög hætta að fljúga þangað, fjölmiðlar nenna ekki að segja af þeim fréttir og allt virðist komið í svipað far og var áður en verksmiðjan var reist.






×