Bíó og sjónvarp

Eru álög á nýju Bond myndinni?

Það er greinilega eitt það hættulegasta sem maður getur tekið sér fyrir hendur að vinna við nýju Bond myndina.

Tæplega sextugur tæknimaður við myndina fannst liggjandi í blóði sínu með stungusár fyrir hús í Dornbirn í Austurríki. Talið er að hann hafi fylgt kvenkyns húsráðanda heim af bar, en lent í deilum við hana þegar inn var komið. Hún hafi svo stungið hann með steikarhníf í svefnherbergi hússins. Hann komst út við illan leik og liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi.

Þetta er þriðja alvarlega atvikið síðan að tökur á Quantum of Solace hófust. Fyrir tveimur vikum keyrði áhættuleikari út af þröngum fjallvegi á Ítalíu og steyptist út í Garda vatn. Sex dögum síðar lenti annar áhættuleikari í hörðum árekstri á sama vegi og slasaðist alvarlega þegar verið var að mynda bílaeltingarleik.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×