Hin hægri gildi Einar Már Jónsson skrifar 6. ágúst 2008 06:00 Ef eitthvað er að marka það sem stendur í frönskum blöðum þessa stundina og þenur sig jafnvel yfir forsíður þeirra, álíta hægri menn nú, rúmu ári eftir kosningasigurinn, að þeir hafi unnið endanlegan sigur í því hugmyndafræðilega stríði sem vinstri menn og hægri hafa háð linnulaust í marga áratugi, nú séu hin svokölluðu „hægri gildi" orðin einráð í þjóðfélaginu og verði aldrei til eilífðar nóns snúið aftur frá því. Þeir sem hafa fylgst með þróun mála í landinu að undanförnu hafa að vísu ekki greint mikil merki um neina stórstyrjöld, enda er erfitt að ímynda sér nokkurt hugmyndafræðilegt stríð sem franski sósíalistaflokkurinn gæti hugsanlega unnið, eins og nú er komið fyrir honum. En hægri menn tala eigi að síður digurbarkalega, og hafa þeir til marks um sigurinn, að þeir hafa getað komið sínum lagafrumvörpum um „umbætur" í gegn án þess að verða fyrir nokkurri teljandi mótspyrnu, hvorki innan þings né utan. Eins og forsætisráðherrann sagði hafa Frakkar nú skipt um „stefnu, menningu, gildi og stjórn". Þessi „hægri gildi", sem nú eru sögð hafa sigrað, eru með ýmsu móti og í stundlegum orðræðum er hvert þeirra oft sett upp í andstæðu við eitthvert „vinstri gildi", sem svo er kallað og valið eitthvert nafn, sem hentar í þessu samhengi, það er „einstaklingshyggja" á móti „samvinnu", „skylda" á móti „réttindum", „ábyrgð" á móti „refsingaleysi", „vinnusemi" á móti „forsjárhyggju" og við þetta bætist svo að sjálfsögðu „lágmarksþjónusta" á móti „verkföllum", enda lýsti forsetinn ástandinu eftir „sigurinn" glaðhlakkalega með orðunum: „Þegar verkfall er nú í Frakklandi, tekur enginn eftir því." Til að fá skýrari mynd af því sem felst í þessum sigri „hægri gilda" er kannske rétt að sleppa orðunum og líta þess í stað á gerðirnar, stjórnarstefnuna og framkvæmd hennar eins og hún bitnar á almenningi. Hún er í rauninni ekki flókin og felst fyrst og fremst í því að skera niður og „einkavæða" að sem mestu leyti þegar því verður við komið allt sem hægt er að kalla „félagslega þjónustu" og slíkt, og taka svo í leiðinni af almenningi öll þau réttindi sem hann hefur áunnið sér með langri baráttu. Eitt af því sem hefur verið til umræðu um skeið eru breytingar af þessu tagi í heilbrigðisþjónustunni, sjúkrahús eru sameinuð í óskapleg bákn og farið er að reka þau eins og gróðafyrirtæki, hvort sem þau eru einkavædd að öllu leyti eða ekki, og það hefur þá ekki síst í för með sér að lítil sjúkrahús sem ekki eru talin nógu arðvænleg eru umsvifalaust lögð niður. Einn þáttur í þessari þróun hefur mjög verið í sviðsljósinu, og það er fækkun fæðingarheimila: stjórnunarfræðingar rýna í tölur, og ef þeir sjá að tala fæðinga á einhverjum stað er fyrir neðan ákveðið lágmark er viðkomandi fæðingarheimili lokað, þó svo að kannske séu hundrað kílómetrar eða svo í næstu fæðingardeild. Ef það er nú rétt að „hægri gildin" hafi borið sigur úr býtum, getur almenningur vitanlega engu breytt um þessa þróun, og síst af öllu dugir að vera með einhver mótmæli, því enginn tekur eftir því, eins og forsetinn sagði. En hins vegar er ekki nema eðlilegt að almenningur reyni að laga sig eftir þessu nýja ástandi, og þess sjást nú ýmis merki. Dæmi um slíka aðlögun var nýlega að fá í smábæ að nafni Sainte-Colombe-sur-Seine í Búrgund austur, sem telur rúmlega þúsund íbúa. Fæðingarheimili þar í sveitinni, þar sem um 230 börn litu dagsins ljós á ári, var lokað frá og með 1. júlí. Því var borið við að barnalæknir og fæðingalæknir á þessum stað væru að hætta störfum og engir hefðu fundist til að taka við störfum þeirra. Íbúar staðarins sögðust hafa fundið þrjá lækna sem væru reiðubúnir til að koma og töldu að þetta væri ekki annað en átylla, allt hefði verið ákveðið fyrirfram. En hvað um það, eftir lokunina var eins og hálfs tíma akstur í næsta fæðingarheimili. Þá brást bæjarstjórinn í Sainte-Colombe-sur-Seine snarlega við, eins og skyldan bauð honum, og hann gaf út tilskipun sem lagði blátt bann við öllum barnsgetnaði á bæjarlandinu, jafnframt var barnshafandi konum gert skylt að hafa yfirgefið staðinn fyrir 1. júlí. Til að árétta þetta setti hann upp skilti, í stíl venjulegra umferðarskilta, með mynd af barnshafandi konu liggjandi í prófíl og áletruninni „Varúð. Læknaauðn." Bæjarstjóri í nálægum bæ fór að dæmi hans og bætti því við að héðan í frá fengju öll ung pör ókeypis smokka á kostnað bæjarfélagsins. Er þetta ekki gott merki um það hvernig þjóðfélagið er að breytast eftir sigur hinna hægri gilda? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Skilyrt loforð Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Upplýsingahernaður Helgi Hrafn Gunnarsson Skoðun Ég vil fá boð í þessa veislu! Silja Björk Björnsdóttir Skoðun Blekking Valkyrjanna Högni Elfar Gylfason Skoðun Tilraun til 40 ára býður skipbrot - allir þegja Björn Ólafsson Skoðun Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun CP félagið, er það til? Steinunn Þorsteinsdóttir Skoðun Fjölmiðlanefnd í stað Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar Ásdís Bergþórsdóttir Skoðun
Ef eitthvað er að marka það sem stendur í frönskum blöðum þessa stundina og þenur sig jafnvel yfir forsíður þeirra, álíta hægri menn nú, rúmu ári eftir kosningasigurinn, að þeir hafi unnið endanlegan sigur í því hugmyndafræðilega stríði sem vinstri menn og hægri hafa háð linnulaust í marga áratugi, nú séu hin svokölluðu „hægri gildi" orðin einráð í þjóðfélaginu og verði aldrei til eilífðar nóns snúið aftur frá því. Þeir sem hafa fylgst með þróun mála í landinu að undanförnu hafa að vísu ekki greint mikil merki um neina stórstyrjöld, enda er erfitt að ímynda sér nokkurt hugmyndafræðilegt stríð sem franski sósíalistaflokkurinn gæti hugsanlega unnið, eins og nú er komið fyrir honum. En hægri menn tala eigi að síður digurbarkalega, og hafa þeir til marks um sigurinn, að þeir hafa getað komið sínum lagafrumvörpum um „umbætur" í gegn án þess að verða fyrir nokkurri teljandi mótspyrnu, hvorki innan þings né utan. Eins og forsætisráðherrann sagði hafa Frakkar nú skipt um „stefnu, menningu, gildi og stjórn". Þessi „hægri gildi", sem nú eru sögð hafa sigrað, eru með ýmsu móti og í stundlegum orðræðum er hvert þeirra oft sett upp í andstæðu við eitthvert „vinstri gildi", sem svo er kallað og valið eitthvert nafn, sem hentar í þessu samhengi, það er „einstaklingshyggja" á móti „samvinnu", „skylda" á móti „réttindum", „ábyrgð" á móti „refsingaleysi", „vinnusemi" á móti „forsjárhyggju" og við þetta bætist svo að sjálfsögðu „lágmarksþjónusta" á móti „verkföllum", enda lýsti forsetinn ástandinu eftir „sigurinn" glaðhlakkalega með orðunum: „Þegar verkfall er nú í Frakklandi, tekur enginn eftir því." Til að fá skýrari mynd af því sem felst í þessum sigri „hægri gilda" er kannske rétt að sleppa orðunum og líta þess í stað á gerðirnar, stjórnarstefnuna og framkvæmd hennar eins og hún bitnar á almenningi. Hún er í rauninni ekki flókin og felst fyrst og fremst í því að skera niður og „einkavæða" að sem mestu leyti þegar því verður við komið allt sem hægt er að kalla „félagslega þjónustu" og slíkt, og taka svo í leiðinni af almenningi öll þau réttindi sem hann hefur áunnið sér með langri baráttu. Eitt af því sem hefur verið til umræðu um skeið eru breytingar af þessu tagi í heilbrigðisþjónustunni, sjúkrahús eru sameinuð í óskapleg bákn og farið er að reka þau eins og gróðafyrirtæki, hvort sem þau eru einkavædd að öllu leyti eða ekki, og það hefur þá ekki síst í för með sér að lítil sjúkrahús sem ekki eru talin nógu arðvænleg eru umsvifalaust lögð niður. Einn þáttur í þessari þróun hefur mjög verið í sviðsljósinu, og það er fækkun fæðingarheimila: stjórnunarfræðingar rýna í tölur, og ef þeir sjá að tala fæðinga á einhverjum stað er fyrir neðan ákveðið lágmark er viðkomandi fæðingarheimili lokað, þó svo að kannske séu hundrað kílómetrar eða svo í næstu fæðingardeild. Ef það er nú rétt að „hægri gildin" hafi borið sigur úr býtum, getur almenningur vitanlega engu breytt um þessa þróun, og síst af öllu dugir að vera með einhver mótmæli, því enginn tekur eftir því, eins og forsetinn sagði. En hins vegar er ekki nema eðlilegt að almenningur reyni að laga sig eftir þessu nýja ástandi, og þess sjást nú ýmis merki. Dæmi um slíka aðlögun var nýlega að fá í smábæ að nafni Sainte-Colombe-sur-Seine í Búrgund austur, sem telur rúmlega þúsund íbúa. Fæðingarheimili þar í sveitinni, þar sem um 230 börn litu dagsins ljós á ári, var lokað frá og með 1. júlí. Því var borið við að barnalæknir og fæðingalæknir á þessum stað væru að hætta störfum og engir hefðu fundist til að taka við störfum þeirra. Íbúar staðarins sögðust hafa fundið þrjá lækna sem væru reiðubúnir til að koma og töldu að þetta væri ekki annað en átylla, allt hefði verið ákveðið fyrirfram. En hvað um það, eftir lokunina var eins og hálfs tíma akstur í næsta fæðingarheimili. Þá brást bæjarstjórinn í Sainte-Colombe-sur-Seine snarlega við, eins og skyldan bauð honum, og hann gaf út tilskipun sem lagði blátt bann við öllum barnsgetnaði á bæjarlandinu, jafnframt var barnshafandi konum gert skylt að hafa yfirgefið staðinn fyrir 1. júlí. Til að árétta þetta setti hann upp skilti, í stíl venjulegra umferðarskilta, með mynd af barnshafandi konu liggjandi í prófíl og áletruninni „Varúð. Læknaauðn." Bæjarstjóri í nálægum bæ fór að dæmi hans og bætti því við að héðan í frá fengju öll ung pör ókeypis smokka á kostnað bæjarfélagsins. Er þetta ekki gott merki um það hvernig þjóðfélagið er að breytast eftir sigur hinna hægri gilda?
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun