Lífið

Hönnuðir láta gott af sér leiða

Lætur gott af sér leiða Þorbjörg sameinar ástríðu sína fyrir góðgerðarmálum og íslenskri hönnun með hönnunarpartíi á b5 3. desember.Fréttablaðið/Stefán
Lætur gott af sér leiða Þorbjörg sameinar ástríðu sína fyrir góðgerðarmálum og íslenskri hönnun með hönnunarpartíi á b5 3. desember.Fréttablaðið/Stefán

„Hugmyndin er að koma íslenskum kvenkynshönnuðum á framfæri og láta gott af okkur leiða um leið," segir Þorbjörg Marinósdóttir blaðamaður, en hún stendur fyrir hönnunarpartíi á b5 fimmtudaginn 3. desember. Þar munu íslenskir kvenkynshönnuðir kynna og selja vörur sínar og hver hönnuður mun gefa eina vöru til góðgerðarmála. Þá er fólk hvatt til að mæta með lítinn jólapakka merktan aldri og kyni sem mun fara til þeirra sem minna mega sín.

„Ég hef á hverju ári sett gjafir undir tréð í Smáralind fyrir börn og unglinga sem fá annars fáar eða engar gjafir. Það er nokkuð ljóst að þörfin hefur aldrei verið eins mikil og í ár og því ákvað ég að sameina ástríðu mína fyrir góðgerðarmálum og íslenskri hönnun," segir Þorbjörg.

„Þetta er í fyrsta sinn sem Designer Desember er haldið. Það hefur verið gífurlega vel tekið í þetta bæði af hönnuðum og gestum og því aldrei að vita nema þetta verði árlegt. Ég þurfti því miður að vísa ansi mörgum hönnuðum frá vegna plássleysis og er alveg miður mín yfir því að geta aðeins boðið broti af þeim sem vildu vera með að taka þátt. Ég er því að skoða möguleikann á því að hafa þetta tvö skipti í desember," útskýrir hún. Alls verða fimmtán hönnuðir með að þessu sinni og þar á meðal eru E-label, Gyðja, Emami, Nakti apinn og Volcano design.

„Það er frítt inn og verður stelpulegur jólakokkteill í boði Smirnoff. Eldhúsið verður opið lengi fyrir svanga viðskiptavini og klukkan 22 tekur sjarmörinn Sjonni Brink við með ljúfum tónum fram eftir kvöldi," segir Þorbjörg og vonast til að sjá sem flesta á b5 milli klukkan 18 og 21, 3. desember.-ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.