Lífið

Bolvíkingur með klúrið jólalag

Einar hefur sent frá sér jólalagið Jólatól sem fjallar um jólasvein sem er langt frá því að vera hreinn sveinn.
Einar hefur sent frá sér jólalagið Jólatól sem fjallar um jólasvein sem er langt frá því að vera hreinn sveinn.

„Það er óþarfi að syngja alltaf í kringum grautinn. Af hverju ekki að fara bara beint þar sem hann er heitastur?“ segir bolvíski trúbadorinn Einar Örn Konráðsson. Hann hefur sent frá sér lagið Jólatól sem er heldur klúrt og fjallar um jólasvein sem er langt frá því að vera hreinn sveinn.

„Þetta er gamalt lag frá mér sem hét áður hringvöðvalagið. Ég samdi bara nýjan jólatexta ofan í það og var enga stund að því. Ég tók þetta upp á rúmlega klukkustund heima hjá mér, notaði hringluna hjá syni mínum og henti þessu inn,“ segir Einar Örn, sem setti lagið rakleiðis inn á Youtube- og Facebook-síðurnar.

Ástarvikan hefur verið haldin í Bolungarvík í ágúst undanfarin ár við góðar undirtektir. Þrátt fyrir að hafa gefið út þetta klúra jólalag vill Einar ekki meina að allir Bolvíkingar séu með kynlíf á heilanum. „Ég held ég skeri mig svolítið úr varðandi það opinberlega. Ég held að hinir haldi sig bara út af fyrir sig inni í herbergi. Þetta liggur svolítið létt fyrir mér að semja einhverja kúk- og pissbrandara inn í textana.“

Einar stundar nám í Keflavík um þessar mundir en fer alltaf vestur um páskana og spilar fyrir heimamenn í Kjallaranum. Hann hefur verið trúbador í rúm tíu ár og gefið út eina plötu, Lognið á undan storminum. Einnig vann hann trúbadorakeppni Suðurnesja fyrir nokkrum árum. En er hann alltaf svona klúr?„Ég er svona tvískiptur. Annars vegar er ég þessi klúri Einar Örn en síðan er alveg hinn póll­inn á móti. Þessi dúnmjúki Einar sem er alveg með ballöðurnar á kristaltæru.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.