Lífið

Býður UNICEF að nota lagið sitt

matthías ægisson Yngsti bróðir Gylfa Ægissonar hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu.
fréttablaðið/gva
matthías ægisson Yngsti bróðir Gylfa Ægissonar hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu. fréttablaðið/gva

Matthías Ægisson, yngsti bróðir Gylfa Ægissonar, hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu, Vegferð. Á plötunni eru tíu lög af fjölbreyttum toga sem voru samin á 33 ára tímabili.

„Ég hef ætlað mér að gefa þetta út í langan tíma. Dóttir mín var búin að suða í mér að gera eithvað með þetta,“ segir Matthías. Hann vonast til að koma einu laganna, When We Cross That Border sem trúbadorinn Halli Reynis syngur, á framfæri hjá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur þegar komið eintaki af plötunni á Jóhönnu Vilhjálmsdóttur sem situr í stjórn UNICEF á Íslandi. „Mig langar að koma laginu á framfæri erlendis í samstarfi við þau á Íslandi,“ segir hann. Lagið ætti að eiga vel við starfsemi UNICEF enda fjallar það um börn sem þurfa að glíma við hungursneyð.

Síðasta lag plötunnar, Mamma mín, samdi Matthías til móður sinnar fyrir 33 árum þegar hann var sextán ára. Hún fékk að heyra það fyrst síðastliðinn föstudag á sjúkrahúsi á Siglufirði þar sem hún hefur dvalið eftir að húsið hennar brann til kaldra kola í byrjun ársins. „Hún var mjög ánægð en hún var búin að vita af þessu lagi lengi. Ég hef bara aldrei gert neitt í því að koma því frá mér.“

Matthías hefur mest spilað fyrir sjálfan sig í gegnum árin og gert lítið af því að halda tónleika. Hann hefur eitthvað spilað í jarðarförum með Páli Rósinkrans og vill hann einmitt kynna fyrsta lag plötunnar, Minn er hugur hljóður, fyrir fleirum sem syngja í jarðarförum.

Hægt er að panta plötuna eða hlusta á tóndæmi af henni á síðunni Mae-media.net. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.