Lífið

Sjálfsefi og ást á sólóplötu

snorri helgason Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu.
snorri helgason Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu.

Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu. Hann er þekkastur sem meðlimur Sprengjuhallarinnar en stígur núna einn fram á sjónarsviðið.

Nýja platan nefnist I"m Gonna Put My Name On Your Door og hefur að geyma ellefu ný lög eftir Snorra. Hann byrjaði að huga að plötunni í desember í fyrra þegar ljóst var að Sprengjuhöllin væri á leiðinni í frí um óákveðinn tíma. Tónlistin er nokkuð frábrugðin Sprengjuhöllinni. Meiri áhersla er lögð á kassagítarleik og söngurinn er allur á ensku. „Ég hlustaði mikið á þjóðlagatónlist og blús þegar ég byrjaði að vinna í þessu og það kannski hefur áhrif," segir Snorri um plötuna.

Textarnir eru af ýmsum toga. „Þarna er mikið um sjálfsefa og eitthvað svoleiðis. Síðan eru þarna líka mjög hefðbundin ástarlög. Þetta eru alls konar vangaveltur."

Í helmingi laganna er Snorri með hljómsveit sér til halds og trausts þar sem félagi hans úr Sprengjuhöllinni, Sigurður Tómas Guðmundsson, mundar trommukjuðana. Í hinum helmingnum er hann einn á ferðinni með kassagítarinn og nýtur þar aðstoðar frá upptökustjóranum og hljómborðsleikaranum Kristni Gunnari Blöndal.

Snorri ætlar að fylgja nýju plötunni vel á eftir hér heima og er lagður af stað í tónleikaferð um landið með Hjaltalín og Heiðurspiltunum þar sem Sigríður Thorlacius er í fararbroddi. Tónleikaferð erlendis er síðan fyrirhuguð í janúar.

„Ég er að skoða alls konar möguleika. Ég er að reyna að stilla einhverju upp með útgáfu og fleira erlendis," segir hann og býst við því að byrja í Evrópu. „Þar eru sterkari tengsl en annars er ég opinn fyrir öllu. Mig langar mjög mikið að komast á Bandaríkjamarkað líka."freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.