Auðlindir á útsölu Sverrir Jakobsson skrifar 8. september 2009 06:00 Einungis hefur liðið rúmlega hálft ár frá því að mynduð var ríkisstjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks, en það verður að teljast fádæmi í sögu lýðveldisins. Það er greinilegt að óþol þessara flokka eftir því að komast aftur á valdastóla er einnig fádæmalaust, en ekki má þó gleyma því að valdasetu þeirra er ekki enn að fullu lokið. Þeir sitja t.d. enn þá í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og verk þess meirihluta segja meira um stefnu flokkanna en mörg orð. Nýjasti gjörningur borgarstjórnarmeirihlutans er að stór hlutur í Hitaveitu Suðurnesja var seldur erlendu stórfyrirtæki nánast í skjóli nætur. Fyrirvarinn var skammur og samningurinn fékkst ekki birtur almenningi fyrr en fyrir fáeinum dögum. Í ljós kemur að flokkarnir tveir hafa engu gleymt frá því að þeir voru í stjórn saman og lögðu drög að einkavæðingu bankanna og útrásarævintýrinu sem haft hefur afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Tvær kreddur virðast ráða ferðinni. Annars vegar oftrú á nytsemi einkareksturs í gróðaskyni, hvort sem fyrirtækin eiga í samkeppni, fákeppni eða engri keppni. Í öðru lagi er það svo kreddan um að orkuauðlindir eigi að selja til erlendra stórfyrirtækja á sérstökum afsláttarkjörum. Orkustefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er s.s. sú sama og þegar þeir sátu í ríkisstjórn fyrir fáeinum árum og auglýstu heimsins ódýrustu orku á alþjóðavettvangi. Það vekur athygli að kaupandinn á hlutnum er sænskt skúffufyrirtæki sem virðist stofnað eingöngu til að komast í kringum lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri (34/1991, sjá sérstaklega 4. gr, 2. lið). Samkvæmt þeim eru virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita takmörkuð við aðila frá Íslandi eða evrópska efnahagssvæðinu. Það er sérstakt að opinbert fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur skuli taka þátt í samningum sem eru hannaðir til þess að fara í kringum íslensk lög. Samningur Orkuveitu Reykjavíkur við hið sænska dótturfélag er með vildarkjörum fyrir hinn erlenda aðila sem minna óneitanlega á vinnubrögð útrásarfyrirtækjanna þar sem allt var fjármagnað með lánum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að Orkuveitan láni Magma fyrir 70% af kaupverðinu. Í öðru lagi er Orkuveitan ekki með veð í neinu nema bréfunum sjálfum. Slík kjör væru eflaust litin öfundaraugum af t.d. íbúðakaupendum sem þurfa að standa skil á lánum þótt þau hafi vaxið umfram verðgildi hinnar upphaflegu fjárfestingar. Í umræðu um niðurfellingu skulda einstaklinga sem hafa tekið slík lán fer enginn í grafgötur um að það teldist styrkur við lántakandann ef einungis er hægt að ganga að eigninni sjálfri upp í lán. Hið erlenda stórfyrirtæki fær hins vegar slíkan styrk á silfurfati frá Orkuveitunni. Í þriðja lagi er lánið á afsláttarkjörum. Það ber einungis 1,5% vexti og verður greitt til baka í einni greiðslu að sjö árum liðnum. Þetta lán er að einhverju leyti verðtryggt að því leyti að það er tengt álverði - en sveiflur á því hafa raunar alltof mikil áhrif á íslenskan efnahag nú þegar. Kjörunum má líkja við námslán sem hafa löngum verið kölluð styrkur - ekki síst af hægrimönnunum sem hafa meirihluta í stjórn Orkuveitunnar. Í fjórða lagi er öll gengisáhætta tekin af Orkuveitunni þar sem lánið er í Bandaríkjadölum. Áhættan er því meiri í ljósi þess að gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal er frekar lágt um þessar mundir og lánið mun því líklega rýrna frekar en hitt. Þessir skilmálar eru ekki það sem gengur og gerist erlendis - þvert á móti. Samkvæmt fréttum sem birst hafa um viðskipti Magma í Fréttablaðinu hafa samningar fyrirtækisins í Bandaríkjunum verið með mun harðari skilmálum. Auðlindagjaldið er þar meira en sexfalt hærra og samningarnir einungis til tíu ára en ekki til 65 ára. Hér er því enn þá verið að undirbjóða íslenska orku án tillits til komandi kynslóða. Öll umgjörðin í kringum þessa samningsgerð er afar eftirtektarverð. Til dæmis fékk almannatengslafyrirtækið Athygli að kaupa sérblað í Morgunblaðinu og því fylgdi leiðari þar sem kaup Magma á Orkuveitunni voru mærð. Ekki kom þó fram að Magma er viðskiptavinur þessa almannatengslafyrirtækis. Ekki að fyrirtækið þurfi að kaupa sér jákvæða umfjöllun í Morgunblaðinu; daginn eftir birti blaðið frétt undir fyrirsögninni „Velgengni Magma vekur athygli". Hjá sumum íslenskum fjölmiðlum virðist ekkert hafa breyst frá því á tímum útrásarinnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sverrir Jakobsson Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun
Einungis hefur liðið rúmlega hálft ár frá því að mynduð var ríkisstjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks, en það verður að teljast fádæmi í sögu lýðveldisins. Það er greinilegt að óþol þessara flokka eftir því að komast aftur á valdastóla er einnig fádæmalaust, en ekki má þó gleyma því að valdasetu þeirra er ekki enn að fullu lokið. Þeir sitja t.d. enn þá í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og verk þess meirihluta segja meira um stefnu flokkanna en mörg orð. Nýjasti gjörningur borgarstjórnarmeirihlutans er að stór hlutur í Hitaveitu Suðurnesja var seldur erlendu stórfyrirtæki nánast í skjóli nætur. Fyrirvarinn var skammur og samningurinn fékkst ekki birtur almenningi fyrr en fyrir fáeinum dögum. Í ljós kemur að flokkarnir tveir hafa engu gleymt frá því að þeir voru í stjórn saman og lögðu drög að einkavæðingu bankanna og útrásarævintýrinu sem haft hefur afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Tvær kreddur virðast ráða ferðinni. Annars vegar oftrú á nytsemi einkareksturs í gróðaskyni, hvort sem fyrirtækin eiga í samkeppni, fákeppni eða engri keppni. Í öðru lagi er það svo kreddan um að orkuauðlindir eigi að selja til erlendra stórfyrirtækja á sérstökum afsláttarkjörum. Orkustefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er s.s. sú sama og þegar þeir sátu í ríkisstjórn fyrir fáeinum árum og auglýstu heimsins ódýrustu orku á alþjóðavettvangi. Það vekur athygli að kaupandinn á hlutnum er sænskt skúffufyrirtæki sem virðist stofnað eingöngu til að komast í kringum lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri (34/1991, sjá sérstaklega 4. gr, 2. lið). Samkvæmt þeim eru virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita takmörkuð við aðila frá Íslandi eða evrópska efnahagssvæðinu. Það er sérstakt að opinbert fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur skuli taka þátt í samningum sem eru hannaðir til þess að fara í kringum íslensk lög. Samningur Orkuveitu Reykjavíkur við hið sænska dótturfélag er með vildarkjörum fyrir hinn erlenda aðila sem minna óneitanlega á vinnubrögð útrásarfyrirtækjanna þar sem allt var fjármagnað með lánum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að Orkuveitan láni Magma fyrir 70% af kaupverðinu. Í öðru lagi er Orkuveitan ekki með veð í neinu nema bréfunum sjálfum. Slík kjör væru eflaust litin öfundaraugum af t.d. íbúðakaupendum sem þurfa að standa skil á lánum þótt þau hafi vaxið umfram verðgildi hinnar upphaflegu fjárfestingar. Í umræðu um niðurfellingu skulda einstaklinga sem hafa tekið slík lán fer enginn í grafgötur um að það teldist styrkur við lántakandann ef einungis er hægt að ganga að eigninni sjálfri upp í lán. Hið erlenda stórfyrirtæki fær hins vegar slíkan styrk á silfurfati frá Orkuveitunni. Í þriðja lagi er lánið á afsláttarkjörum. Það ber einungis 1,5% vexti og verður greitt til baka í einni greiðslu að sjö árum liðnum. Þetta lán er að einhverju leyti verðtryggt að því leyti að það er tengt álverði - en sveiflur á því hafa raunar alltof mikil áhrif á íslenskan efnahag nú þegar. Kjörunum má líkja við námslán sem hafa löngum verið kölluð styrkur - ekki síst af hægrimönnunum sem hafa meirihluta í stjórn Orkuveitunnar. Í fjórða lagi er öll gengisáhætta tekin af Orkuveitunni þar sem lánið er í Bandaríkjadölum. Áhættan er því meiri í ljósi þess að gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal er frekar lágt um þessar mundir og lánið mun því líklega rýrna frekar en hitt. Þessir skilmálar eru ekki það sem gengur og gerist erlendis - þvert á móti. Samkvæmt fréttum sem birst hafa um viðskipti Magma í Fréttablaðinu hafa samningar fyrirtækisins í Bandaríkjunum verið með mun harðari skilmálum. Auðlindagjaldið er þar meira en sexfalt hærra og samningarnir einungis til tíu ára en ekki til 65 ára. Hér er því enn þá verið að undirbjóða íslenska orku án tillits til komandi kynslóða. Öll umgjörðin í kringum þessa samningsgerð er afar eftirtektarverð. Til dæmis fékk almannatengslafyrirtækið Athygli að kaupa sérblað í Morgunblaðinu og því fylgdi leiðari þar sem kaup Magma á Orkuveitunni voru mærð. Ekki kom þó fram að Magma er viðskiptavinur þessa almannatengslafyrirtækis. Ekki að fyrirtækið þurfi að kaupa sér jákvæða umfjöllun í Morgunblaðinu; daginn eftir birti blaðið frétt undir fyrirsögninni „Velgengni Magma vekur athygli". Hjá sumum íslenskum fjölmiðlum virðist ekkert hafa breyst frá því á tímum útrásarinnar.