Lífið

Mannfræðingur með myndavél

Baðmenning á Íslandi
<B>Kolbrún Helgadóttir</B> lærði ljósmyndun og borgarmenningu í Goldsmiths-háskóla í London. Hún hélt ljósmyndasýningu ásamt bekkjarfélögum sínum þar sem hún sýndi myndir sínar af íslenskum náttúrulaugum.
Baðmenning á Íslandi <B>Kolbrún Helgadóttir</B> lærði ljósmyndun og borgarmenningu í Goldsmiths-háskóla í London. Hún hélt ljósmyndasýningu ásamt bekkjarfélögum sínum þar sem hún sýndi myndir sínar af íslenskum náttúrulaugum.

„Námið sem ég var í tvinnar saman ljósmyndun og borgarskipulag, það er að segja hvernig fólk nýtir almenningsrými á mismunandi vegu og fleira í þeim dúr. Ég er menntaður mannfræðingur en hef alltaf haft áhuga á ljósmyndun líka og fannst skemmtilegt að blanda ljósmyndun saman við félags- og mannfræðilegar rannsóknir," útskýrir Kolbrún Vaka Helgadóttir, sem lauk nýverið meistaranámi við Goldsmiths-háskólann í London.

Kolbrún og bekkjarfélagar hennar héldu ljósmyndasýningu eftir útskriftina þar sem Kolbrún sýndi verk úr lokaverkefni sínu. „Þetta var ekki partur af náminu heldur ákváðu nokkrir úr bekknum bara að halda sýningu saman. Ég sýndi myndir sem ég hafði tekið fyrir meistaraverkefni mitt sem fjallaði um sundlaugamenninguna á Íslandi og borgarbúann sem fer í sund til að losna undan skarkala borgarinnar. Myndirnar voru teknar í náttúrulegum laugum víðs vegar um Ísland." Sýningin stóð yfir í tvær vikur og var hún vel sótt að sögn Kolbrúnar.

Aðspurð segir hún myndirnar hafa vakið nokkra athygli og fólki fannst íslenska sundlauga­menningin bæði forvitnileg og skrýtin. „Þetta er ekki hlutur sem menn gera í Bretlandi. Fólk skildi ekki af hverju við vorum að þessu og sumir áttuðu sig ekki heldur á því að laugarnar væru heitar." Kolbrún segist upphaflega hafa ætlað að mynda sundlaugarnar í borginni en hætti við þar sem fólk kunni ekki við það að vera myndað á sund­skýlum.

„Mér fannst auðveldara að taka myndir í náttúrulaugunum, þá sat ég bara ofan í lauginni með myndavélina og smellti af. Þar sem flestar náttúru­laugarnar eru vinsælir ferðamannastaðir þótti eðlilegra að taka myndir þar og fólk kippti sér lítið upp við þetta."

Innt eftir því hvort hún ætli að halda sýningu hér heima segist Kolbrún ekki útiloka þann möguleika. „Myndirnar eru á leið til landsins og það væri gaman að halda sýningu þegar þær koma. Annar hluti af lokaverkefninu mínu var ljósmyndabók sem mig langar líka að vinna áfram með. Annars lít ég á mig sem mannfræðing með myndavél, ég vil fyrst og fremst skrásetja daglegt líf en ekki taka listrænar myndir eða stúdíómyndir," segir Kolbrún að lokum. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.