Lífið

Þrjár plötur seljast langbest

friðrik og jógvan Plata Friðriks Ómars og Jógvans, Vinalög, hefur selst í um níu þúsund eintökum á Íslandi og í Færeyjum.fréttablaðið/anton
friðrik og jógvan Plata Friðriks Ómars og Jógvans, Vinalög, hefur selst í um níu þúsund eintökum á Íslandi og í Færeyjum.fréttablaðið/anton

Þrjár plötur eru áberandi söluhæstar það sem af er þessu ári. Plata Friðriks Ómars og Jógvans, Vinalög, er á toppnum með um níu þúsund eintök seld, þar af tvö þúsund í Færeyjum. Næst á eftir koma Jólatónleikaplata Björgvins Halldórssonar og fjórða plata Hjálma með í kringum sjö þúsund eintök hvor.

Eiður Arnarsson, útgáfustjóri Senu, er að vonum ánægður með viðtökurnar við Vinalaga-plötunni.

„Þetta er gott dæmi um plötu sem er að virka út á brjáðsnjalla hugmynd,“ segir Eiður. Tvö þúsund eintökin í Færeyjum eru einnig ánægjuefni. „Ég er ekki sérfræðingur um færeyska markaðinn en mig grunar að þetta sé söluhæsta platan í Færeyjum fyrir jól.“ Eiður bætir við að stóri munurinn á sölunni núna og undan­farin ár sé sá að söluhæstu plöturnar í ár eru ekki jafnsöluháar og vinsælustu plöturnar í fyrra. Þá seldi Páll Óskar um fimmtán þúsund eintök af Silfur­safninu, plata með minningar­tónleikum Vilhjálms Vilhjálmssonar seldist í um tólf þúsund eintökum og Mamma Mia fór í um ellefu þúsundum.

„Fjórar vinsælustu plöturnar í fyrra náðu meira en tíu prósentum af heildar­sölunni en í ár ná þær mun minna.“

Steinþór Helgi Arnsteinsson hjá Borginni er engu síður á því að plata Hjálma, IV, gæti hæglega selst í tólf þúsund eintökum. Það yrði mun meiri sala en á fyrri plötum sveitarinnar, sem hefur verið í kringum sjö þúsund eintök.

„Það er eitthvað bjartara og jákvæðara yfir þessari plötu en þeirri síðustu og ég held að það sé að skila sér,“ segir Steinþór. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.