Lífið

Þrjár systur með jólatónleika

samrýndar systur Systurnar Þórunn, Ingibjörg og Dísella Lárusdætur halda jólatónleika í Salnum í Kópavogi.
fréttablaðið/valli
samrýndar systur Systurnar Þórunn, Ingibjörg og Dísella Lárusdætur halda jólatónleika í Salnum í Kópavogi. fréttablaðið/valli

„Við höfum ekki sungið saman í dágóðan tíma og þetta er alveg æðislegt,“ segir leik- og söngkonan Þórunn Lárusdóttur. Hún syngur ásamt systrum sínum Ingibjörgu og Dísellu á jólatónleikum í Salnum í Kópavogi á föstudagskvöld.

Þetta verða fyrstu tónleikar þeirra síðan þær gáfu út plötuna Jólaboð árið 2004, enda hefur Dísella verið búsett í Bandaríkjunum. „Núna var hún að syngja í Óperunni. Það gekk svo vel að það voru aukasýningar, þannig að við ákváðum að smella í tónleika fyrst það var hægt,“ segir Þórunn. „Þetta er rosalega skemmtilegt. Við höfum allar þroskast síðan við vorum að vinna saman síðast.

Dísella var ennþá í námi þá og núna er hún orðin frábær óperusöngkona. Við njótum góðs af því,“ segir hún og hlær. „Við erum allar að vinna í okkar verkefnum en það er gaman að hittast og syngja svolítið saman. Maður kemur inn í allt aðra orku og það er bara gaman á æfingum hjá okkur.“ Þórunn leikur í söngleiknum Oliver! sem verður frumsýndur á annan í jólum, Dísella er önnum kafin í Íslensku óperunni og Ingibjörg var að ljúka við síðasta jólaprófið sitt í lögfræði við Háskólann í Reykjavík.

Þórunn lofar skemmtilegum jólatónleikum á föstudagskvöld sem hefjast klukkan 21. „Við syngjum fullt af jólalögum, bæði svolítið poppuð og hátíðleg líka. Svo erum við með skemmtilegar útsetningar sem eru svolítið ögrandi fyrir okkur. Þetta er mjög skemmtilegt prógram og fólk á eftir að labba út í góðu jólaskapi.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.