Njarðvík vann frækinn 90-86 sigur gegn KR í 32-liða úrslitum Subway-bikars karla í körfubolta í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld.
Þetta var annað tap KR gegn Njarðvík á tæpri viku en Njarðvíkingar unnu einnig deildarleik liðanna í Njarðvík á dögunum.
Jafnt var á öllum tölum í fyrsta leikhluta en staðan var 12-12 þegar hann var hálfnaður og 24-24 að honum loknum.
Í öðrum leikhluta virtust heimamenn í Njarðvík, sem voru studdir rækilega af troðfullri Ljónagryfjunni, vera að ná yfirhöndinni en gestirnir í KR náðu að klóra sig aftur inn í leikinn með mikilli baráttu og leiddu í hálfleik 39-44.
Brynjar Þór Björnsson var að leika vel með KR á þeim tímapunkti en kanarnir Semaj Inge og Tommy Johnson höfðu sig þá hæga og Fannar Ólafsson var kominn í villuvandræði.
Í þriðja leikhluta breyttist gangur leiksins mjög og skyttur liðanna fengu að njóta sín.
Njarðvíkingurinn Magnús Þór Gunnarsson var allt í öllu hjá heimamönnum og setti niður fjóra þrista í leikhlutanum og hélt Njarðvík inni í leiknum.
Flest benti hins vegar til þess að KR færi inn í lokaleikhlutann með fjögurra stiga forystu en Kristján Rúnar Sigurðursson setti þá niður rándýra flatukörfu og minnkaði muninn niður í eitt stig, 65-66 og allt ætlaði um koll að keyra á pöllunum.
Lokamínúturnar voru æsispennandi en þá voru Njarðvíkingar skyndilega komnir með yfirhöndina.
Staðan var 86-84 Njarðvík í vil þegar ein mínúta lifði leiks en KR var með boltann.
Tommy Smith reyndi þá þriggja stig skot sem geigaði og Njarðvíkingar fengu boltann og KR-ingar brutu á Guðmundi Jónssyni. Guðmundur sýndi að hann er með stáltaugar og setti niður bæði vítaskotin og kom Njarðvík í 88-84.
Leikurinn kláraðist svo á vítalínunni þar sem Jóhann Árni Ólafsson setti niður tvö vítaskot á lokakaflanum fyrir Njarðvík á meðan Fannar Ólafsson gerði slíkt hið sama fyrir KR og lokatölur sem segir 90-86.
Tölfræðin:
Njarðvík-KR 90-86 (39-44)
Stig Njarðvíkur: Magnús Gunnarsson 28, Jóhann Árni Ólafsson 18, Guðmundur Jónsson 11, Friðrik Stefánsson 10, Páll Kristinsson 10, Hjörtur Einarsson 6, Rúnar Erlingsson 4, Kristján Sigurðsson 3.
Stig KR: Semaj Inge 19, Brynjar Þór Björnsson 14, Finnur Atli Magnússon 14, Fannar Ólafsson 11, Tommy Johnson 9, Darri Hilmarsson 7, Skarphéðinn Ingason 7, Jón Orri Kristjánsson 5.