Lífið

Ein stærsta sýning sögunnar

avatar Jake Sully og prinsessan Neytiri verða ástfangin á tunglinu Pandóru.
avatar Jake Sully og prinsessan Neytiri verða ástfangin á tunglinu Pandóru.

„Þetta er ein af stærstu frumsýningunum frá upphafi á Íslandi,“ segir Guðmundur Breiðfjörð hjá Senu.

Kvikmyndin Avatar verður á föstudaginn frumsýnd í þrettán bíósölum í Reykjavík, Akureyri og Keflavík, bæði í tví- og þrívídd. Hátt í 24 þúsund sæti verða í boði fyrstu þrjá sýningardagana, enda býst Guðmundur við gríðarlegri aðsókn. „Við erum fullir sjálfstrausts vegna þess að það er gríðarlegur meðbyr með myndinni og dómarnir sem hún hefur fengið eru með ólíkindum. Ég er búinn að sjá hana í tvívídd og þetta er besta fantasíumynd sem ég hef séð síðan Lord of the Rings eitt. Svona bíómynd kemur bara á fimm til tíu ára fresti,“ segir hann og bætir við: „Ég hef ekki upplifað mig í bíói svona endurnærðan og ferskan síðan á Lord of the Rings.“

Miðnætursýningar verða á myndinni annað kvöld og er miðasala hafin á Midi.is. Miðaverð á tvívíddina er 1.150 krónur en eilítið dýrara er á þrívíddina, eða 1.400 krónur. Myndin verður einnig forsýnd á vegum Nexus klukkan 20 í kvöld í Smárabíói.

Avatar, sem James Cameron leikstýrir, gerist í framtíðinni á litlu tungli sem heitir Pandóra. Lamaður landgönguliði í bandaríska flotanum að nafni Jake Sully býður sig fram til að lifa sem Avatar á Pandóru og njósna um ættbálkinn Na"vi fyrir herinn. Babb kemur í bátinn þegar hann verður ástfanginn af Neytiri, fallegri Na’vi prinsessu. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.