Lífið

Sopranos í Hafnarborg

tónlist Tríóið Sopranos í jólabúningnum: Margrét Grétarsdóttir, Svana Berglind Karlsdóttir og Hörn Hrafnsdóttir. mynd Sopranos
tónlist Tríóið Sopranos í jólabúningnum: Margrét Grétarsdóttir, Svana Berglind Karlsdóttir og Hörn Hrafnsdóttir. mynd Sopranos

Sopranos verða með jólatónleika í Hafnarborg í kvöld kl. 20. Tríóið Sopranos er landsmönnum að góðu kunnugt en það skipa söngkonurnar Hörn Hrafnsdóttir, Margrét Grétarsdóttir og Svana Berglind Karlsdóttir. Á tónleikunum verður bland af hátíðlegum gullmolum og léttum og skemmtilegum jólalögum í útsetningu Sopranos og Egils Gunnarssonar og eins og stelpunum einum er lagið verður ekki langt í grínið.

Gestasöngvarinn kemur heitur af fjölum íslensku óperunnar og er stórsöngvarinn Bjarni Thor Kristinsson sem hefur glatt landsmenn undanfarið í Ástardrykknum. Hólmfríður Sigurðardóttir mun fara fimum fingrum um flygilinn þetta kvöld og Örnólfur Kristjánsson strýkur sellóið af sinni alkunnu snilld.

„Við erum upp að eyrum í söng á milli þess sem við gerum jólakonfektið og sinnum börnum," segir Svana Berglind. „Ég á lítinn sjö vikna engil sem hlýtur að verða mikið jólabarn því að hún hlustar stóreygð á söngæfingar Sopranos og segir gúú annað slagið. Svo verðum við að sjálfsögðu í jólaþorpinu í Hafnarfirði næstkomandi sunnudag og hlökkum mikið til þess enda jólin komin þegar þorpið opnar. Við höfum verið að grínast með það undanfarið að hér eftir bjóðum við bara söngvurum að syngja með okkur ef þeir eru „búnir að meika það".

Fyrsti gestasöngvarinn okkar var Gissur Páll Gissurarson tenór, þá óþekktur og óskrifað blað á Íslandi en skaust upp á stjörnuhimininn stuttu eftir að hann söng með okkur. Sá næsti í röðinni var Hrólfur Sæmundsson baritón, sem er að slá í gegn í Þýskalandi í vetur og fyrir þessa jólatónleika okkar var löngu ákveðið að gestasöngvarinn yrði Hafnfirðingurinn og útvarpsmaðurinn góðkunni Ásgeir Páll Ásgeirsson sem hefur verið í útlandinu í söngnámi undanfarin misseri. Nema hvað að það er eins og við manninn mælt að þegar Ásgeir Páll var búinn að melda sig til okkar þá er honum boðinn samningur í Þýskalandi og meira virðist vera í pípunum þessa dagana hjá honum. Svo að Bjarni Thor er góður fengur því að hann er nú þegar með yfir 600 óperusýningar að baki, löngu búinn að slá í gegn eins og alþjóð veit og er þar að auki jólasveinalegur með afbrigðum og yfirmáta skemmtilegur, svo að þetta verður bara tóm gleði."

Menningarmálanefnd Hafnarfjarðar styrkir tónleikana. - pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.