Viðskipti innlent

TellMeTwin vinnur Red Herring 100

Einar Sigvaldason
Einar Sigvaldason

Samskipta- og meðmælavefurinn TellMeTwin.com er vinningshafi Red Herring 100 í Evrópu, en viðskipta- og tækniritið Red Herring útnefnir árlega hundrað efnilegustu tæknifyrirtækin.

Síðast var íslenskt fyrirtæki tilnefnt hjá Red Herring árið 1997 þegar leikjafyrirtækið CCP var í hópnum, en árið á undan var tæknifyrirtækið Industria tilnefnt. Einar Sigvaldason, framkvæmdastjóri TellMeTwin, segir um mikilvæga viðurkenningu að ræða enda veki Red Herring-verðlaunin mikla athygli. Fyrirtæki í forvali kynntu sig á ráðstefnu Red Herring í Berlín um mánaðamótin síðustu. „Verðlaunin eru mjög flott og mörg góð fyrirtæki sem kynntu sig," segir Einar. Valið fer þannig fram að sérfræðingar ritstjórnar Red Herring meta nokkur hundruð einka­fyrirtæki út frá fjárhagsgögnum og mati á stefnu, framkvæmd hennar og framlagi til rannsókna og þróunar.

„Red Herring fékk margar góðar umsóknir þrátt fyrir erfitt ár og endurspeglar það greinilega hlutverk Evrópu sem þungamiðju nýsköpunar meðal tæknifyrirtækja," er haft eftir Farley Duvall, framkvæmdastjóra Red Herring, í tilkynningu. - óká








Fleiri fréttir

Sjá meira


×