Viðskipti erlent

Krugman segir að Austurríki sé ekki dauðadæmt efnahafslega

MYND/AP

Paul Krugman prófessor við Princeton háskólann og Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði 2008 segir að Austurríki sé ekki dauðadæmt í efnahagsmálum þrátt fyrir alvarlega áhættu af lánum banka landsins til þjóða í Austur-Evrópu.

Austurríki sé ekki eins yfirgengilega skuldsett og Ísland og jafnvel Írland. „Hinsvegar gæti Austurríki neyðst til að bjarga bönkum sínum og slíkt muni setja mikinn þrýsting á efnahag landsins," segir Krugman á bloggsíðu sinni hjá New York Times.

Fyrri yfirlýsingar Krugman um slæma stöðu Austurríkis hafa valdið miklum taugatitringi þar í landi. Krugman sagði á blaðamannafundi á þriðjudag að hætta væri á þjóðargjaldþroti Austurríkis vegna bankalánanna til Austur-Evrópu.

Austurrísk stjórnvöld brugðust við þessu með því að segja að yfirlýsingar Krugman byggðu á óstaðfestum upplýsingum og gætu skaðað orðstír landsins.

Nú hefur Krugman sumsé dregið aðeins í land en segir þó að hættan sé enn til staðar nú þegar Evrópu glímir við verstu gjaldmiðlakreppu í sögu sinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×