Hænufetið Þorsteinn Pálsson skrifar 3. júní 2009 06:00 Fjármálaráðherrann hefur sætt nokkuð harðri gagnrýni vegna nýrra skatta á bensín og áfengi. Fæstum kemur það á óvart. Þessa ákvörðun verður hins vegar að skoða í ljósi aðstæðna. Eðlilega hlakkar í mörgum sem hlustað hafa á ómálefnalega gagnrýni fjármálaráðherrans sjálfs vegna svipaðra aðgerða forvera hans. Auðvelt er að lesa yfir honum hans eigin orð um afleiðingar ráðstafana af þessu tagi og áhrif þeirra á hag skuldugra heimila. Frá þeim bæjardyrum séð á hann svipuhöggin skilin. Hitt er þó mikilvægara eins og sakir standa að horfa á málið af lítið eitt hærri kögunarhóli. Náist ekki jafnvægi í rekstri ríkissjóðs er algjörlega borin von að endurreisn efnahagslífsins takist. Fyrsta óhjákvæmilega hænufetið sem stigið er að því marki er þar af leiðandi ekki málefnaleg ástæða til að beita svipunni gegn fjármálaráðherranum. Jafnvægi verður ekki að veruleika nema með umfangsmikilli hagræðingu og stórtækum niðurskurði. Það næst heldur ekki án þess að lækka launakostnað í opinberum rekstri eins og þegar hefur gerst á almennum vinnumarkaði. Loks verður ekki undan því vikist að afla viðbótartekna. Tekjuskattshækkun í kjölfar almennrar launalækkunar er þó verulegum takmörkunum háð af augljósum ástæðum. Eftir hækkun skatta á áfengi og bensín er allur raunverulegi sársaukinn eftir. Það er kjarni málsins. Rök standa því til að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að byrja á smáskammtalækningum. Í upphafi þessa árs átti að réttu lagi að liggja fyrir heildaráætlun um aðgerðir í ríkisfjármálum. Nú fyrst er hún boðuð. Eðlilegra hefði verið að sýna fyrst niðurskurð, aðhald og launakostnaðarlækkun. Eftir það hefði verið rétt að kynna megintekjuöflunarbreytingar. Sú skattabreyting sem ákveðin hefur verið er tæpast annað en holufylling sem huga á að þegar raunverulegi uppskurðurinn hefur verið saumaður saman. Aðferðafræði ríkisstjórnarinnar er því augljós vísbending um að hún sé enn ráðvillt og hikandi. Ríkisstjórnin verðskuldar þar af leiðandi gagnrýni og pólitísk svipuhögg fyrir að halda þjóðinni í þeirri stöðu og draga með því á langinn möguleika hennar til viðspyrnu. Engu er líkara en forsætisráðherrann hafi ekki strik til að sigla eftir. Fyrir skömmu fóru sveitarfélögin fram á það við ríkisstjórnina að hún beitti sér fyrir lagabreytingum til að greiða fyrir launakostnaðarhagræðingu í grunnskólum. Án slíkra aðgerða er enginn vegur fyrir sveitarfélögin og ríkisstjórnina sjálfa að ná tökum á fjármálavandanum. Svar ríkisstjórnarinnar var að einstakir hagsmunahópar ættu að hafa neitunarvald þar um. Ríkisstjórnin boðar stöðugleikasáttmála á vinnumarkaði. Hún leggur hins vegar engar línur þar að lútandi. Þau mál eru nú í uppnámi. Að réttu lagi á ríkisstjórnin að hafa forystu um að afmarka það svigrúm sem aðilar hafa til heildarlaunabreytinga við ríkjandi aðstæður. Sú ábyrgð hvílir hins vegar öll á vinnumarkaðnum. Þangað er nú horft eftir forystu um heildarlausnir. Ríkisstjórnin hefur algjörlega sloppið við pólitíska gagnrýni á þennan augljósa veikleika sem veit bæði að pólitískri stöðu hennar og stefnu. Það ber hins vegar ekki vott um almennan skilning á ríkisfjármálavandanum ef hænufetið verður ádeiluefni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun Árið 1975 er að banka Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Eru tengsl milli Úkraínustríðsins og breyttrar stöðu Grænlands? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Kennarar segja: „Nóg komið!“ – Verkfall fyrir virðingu og verðskulduð réttindi Jónas Sen Skoðun Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun Friður á jörðu Þröstur Friðfinnsson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun
Fjármálaráðherrann hefur sætt nokkuð harðri gagnrýni vegna nýrra skatta á bensín og áfengi. Fæstum kemur það á óvart. Þessa ákvörðun verður hins vegar að skoða í ljósi aðstæðna. Eðlilega hlakkar í mörgum sem hlustað hafa á ómálefnalega gagnrýni fjármálaráðherrans sjálfs vegna svipaðra aðgerða forvera hans. Auðvelt er að lesa yfir honum hans eigin orð um afleiðingar ráðstafana af þessu tagi og áhrif þeirra á hag skuldugra heimila. Frá þeim bæjardyrum séð á hann svipuhöggin skilin. Hitt er þó mikilvægara eins og sakir standa að horfa á málið af lítið eitt hærri kögunarhóli. Náist ekki jafnvægi í rekstri ríkissjóðs er algjörlega borin von að endurreisn efnahagslífsins takist. Fyrsta óhjákvæmilega hænufetið sem stigið er að því marki er þar af leiðandi ekki málefnaleg ástæða til að beita svipunni gegn fjármálaráðherranum. Jafnvægi verður ekki að veruleika nema með umfangsmikilli hagræðingu og stórtækum niðurskurði. Það næst heldur ekki án þess að lækka launakostnað í opinberum rekstri eins og þegar hefur gerst á almennum vinnumarkaði. Loks verður ekki undan því vikist að afla viðbótartekna. Tekjuskattshækkun í kjölfar almennrar launalækkunar er þó verulegum takmörkunum háð af augljósum ástæðum. Eftir hækkun skatta á áfengi og bensín er allur raunverulegi sársaukinn eftir. Það er kjarni málsins. Rök standa því til að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að byrja á smáskammtalækningum. Í upphafi þessa árs átti að réttu lagi að liggja fyrir heildaráætlun um aðgerðir í ríkisfjármálum. Nú fyrst er hún boðuð. Eðlilegra hefði verið að sýna fyrst niðurskurð, aðhald og launakostnaðarlækkun. Eftir það hefði verið rétt að kynna megintekjuöflunarbreytingar. Sú skattabreyting sem ákveðin hefur verið er tæpast annað en holufylling sem huga á að þegar raunverulegi uppskurðurinn hefur verið saumaður saman. Aðferðafræði ríkisstjórnarinnar er því augljós vísbending um að hún sé enn ráðvillt og hikandi. Ríkisstjórnin verðskuldar þar af leiðandi gagnrýni og pólitísk svipuhögg fyrir að halda þjóðinni í þeirri stöðu og draga með því á langinn möguleika hennar til viðspyrnu. Engu er líkara en forsætisráðherrann hafi ekki strik til að sigla eftir. Fyrir skömmu fóru sveitarfélögin fram á það við ríkisstjórnina að hún beitti sér fyrir lagabreytingum til að greiða fyrir launakostnaðarhagræðingu í grunnskólum. Án slíkra aðgerða er enginn vegur fyrir sveitarfélögin og ríkisstjórnina sjálfa að ná tökum á fjármálavandanum. Svar ríkisstjórnarinnar var að einstakir hagsmunahópar ættu að hafa neitunarvald þar um. Ríkisstjórnin boðar stöðugleikasáttmála á vinnumarkaði. Hún leggur hins vegar engar línur þar að lútandi. Þau mál eru nú í uppnámi. Að réttu lagi á ríkisstjórnin að hafa forystu um að afmarka það svigrúm sem aðilar hafa til heildarlaunabreytinga við ríkjandi aðstæður. Sú ábyrgð hvílir hins vegar öll á vinnumarkaðnum. Þangað er nú horft eftir forystu um heildarlausnir. Ríkisstjórnin hefur algjörlega sloppið við pólitíska gagnrýni á þennan augljósa veikleika sem veit bæði að pólitískri stöðu hennar og stefnu. Það ber hins vegar ekki vott um almennan skilning á ríkisfjármálavandanum ef hænufetið verður ádeiluefni.
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun