Sport

Fríða Rún og Sigurður urðu bæði Evrópumeistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fríða Rún Þórðardóttir úr ÍR vann þrjú verðlaun á mótinu.
Fríða Rún Þórðardóttir úr ÍR vann þrjú verðlaun á mótinu. Mynd/Teitur

Fríða Rún Þórðardóttir úr ÍR og Sigurður Haraldsson úr Leikni, Fáskrúðsfirði urðu bæði Evrópumeistarar í frjálsum á EM 35 ára og eldri sem fram fór í Ancona á Ítalíu um helgina. Íslenski hópurinn vann alls til sex verðlauna á mótinu.

Fríða Rún varð Evrópumeistari í 5 km víðavangshlaupi í flokki 35-39 ára og sigraði með nokkrum yfirburðum en hún var rúmlega mínútu á undan næstu konu í mark. Fríða vann einnig tvö silfurverðlaun á mótinu, í 800 og 1500 metra hlaupi. Þetta er frábær árangur hjá Fríðu en hún er á elsta ári í aldursflokknum, verður 39 ára á þessu ári.

Sigurður Haraldsson vann gullverðlaun í kringlukasti í flokki 80-84 ára þegar hann kastaði kringlunni 26,92 metra. Sigurður vann einnig bronsverðlaun í kúluvarpi þegar hann kastaði kúlunni 10,11 metra.

Jón H. Magnússon úr ÍR náði einnig verðlaunasæti þegar hann varð í 3. sæti í lóðkasti í flokki 70-74 ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×