Lífið

Naktir kappar slá í gegn á Ísafirði

Á adamsklæðunum Fótboltamennirnir fyrir vestan eru ekki feimnir og varð að vísa leikmönnum frá nektarmyndatökunni frekar en hitt.
Á adamsklæðunum Fótboltamennirnir fyrir vestan eru ekki feimnir og varð að vísa leikmönnum frá nektarmyndatökunni frekar en hitt.

Fótboltakapparnir í Boltafélagi Ísafjarðar fækkuðu fötum á dögunum í fjáröflunarskyni. Ljósmyndarinn Spessi tók af þeim myndir sem verða gefnar út á dagatali á næstunni. Formaðurinn er ánægður með útkomuna og hefur ekki ennþá heyrt gagnrýnisraddir.

„Þetta fór hraðar af stað en við bjuggumst við. Það eru strax farnar að berast pantanir að utan - það var að skríða í hús pöntun af höfuðborgarsvæðinu," segir Svavar Þór Guðmundsson, formaður Boltafélags Ísafjarðar.

Strákarnir í meistaraflokki og 2. flokki Boltafélags Ísafjarðar hafa slegist í hóp þeirra sem fækka fötum í fjáröflunarskyni. Afraksturinn verður dagatal, sem er stórglæsilegt að mati formannsins. „Þeir eru ekki bara góðir í fótbolta, heldur fjallmyndarlegir líka," segir Svavar.

„Það varð að gera eitthvað úr þessu. Það var borið undir þá hvernig þeim litist á að striplast fyrir framan myndavélar og lögð áhersla á að þeir sem vildu ekki vera með þyrftu ekki að gera það. Svo varð úr að hver einasti kjaftur vildi vera með - og rétt rúmlega það. Það þurfti frekar að vísa frá heldur en hitt. Svo var gengið í að finna rétta staðinn og rétta ljósmyndarann - sem var Spessi þegar upp var staðið."

Voru menn feimnir þegar á hólminn var komið?

„Nei, alls ekki. Það var fámennur hópur sem var við þetta, eins og gefur að skilja, og þetta gekk mjög vel. Miklu betur en menn áttu von á." Dagatalið er væntanlegt á næstunni og verður selt á hóflegu verði fyrir vestan.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.