Körfubolti

Jón Arnór: Væri huggulegt að sópa Keflavík út

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jón Arnór hefur farið á kostum gegn Keflavík í vetur. Hann ætlar sér líka stóra hluti í kvöld.
Jón Arnór hefur farið á kostum gegn Keflavík í vetur. Hann ætlar sér líka stóra hluti í kvöld. Mynd/Vilhelm

„Ég veit ekki með félaga mína en ég er algjörlega tilbúinn fyrir þennan slag í kvöld. Við ætlum okkur að klára þetta. Það er ekkert annað í boði," sagði KR-ingurinn Jón Arnór Stefánsson við Vísi.

KR og Keflavík mætast í þriðja skiptið í undanúrslitum Iceland Express-deildar karla í kvöld og KR getur „sópað" Íslandsmeisturunum úr mótinu í kvöld. KR leiðir nefnilega einvígið 2-0.

„Það væri mjög huggulegt að geta sópað þeim út. Það kitlar. Væri fínn bónus og einnig gott að eiga það á Sigga landsliðsþjálfara [Sigurð Ingimundarson, þjálfara Keflavíkur., innsk. blm]," sagði Jón Arnór léttur en hann var á leið í mat. Kjúklingur og hrísgrjón á matseðlinum hjá Jóni í dag.

Jón Arnór segir það alls ekkert auðvelt að gíra sig upp fyrir leik eins og í kvöld þegar lið er komið í þægilega stöðu.

„Það er erfiðara en menn halda andlega að koma sér í rétta gírinn í svona stöðu. Þó svo við séum komnir í 2-0 verður þetta ekkert gefins. Ég geri mér grein fyrir því, er klár í slaginn og vona að félagar mínir séu það líka," sagði Jón Arnór sem hefur farið algjörlega á kostum gegn Keflavík í vetur.

„Mér finnst alltaf auðvelt að gíra mig upp fyrir leiki gegn Keflavík. Þetta hefur verið besta lið landsins lengi og oft unnið KR. Maður er því klár í slíka leiki. Minn helsti galli sem leikmanns er samt sá að ég er alltaf klár í stóru leikina en á það til að slappa aðeins of mikið á í minni leikjunum með fullri virðingu fyrir þeim liðum. Þá vil ég kannski stundum setjast á bekkinn. En ekki í svona leikjum," sagði Jón Arnór.

Blaðamaður tjáði Jóni að Gunnar Einarsson, leikmaður Keflavíkur, væri búinn að lofa stríði í kvöld.

„Það er bara flott mál. Ég er alltaf tilbúinn í stríð," sagði Jón Arnór.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 í kvöld og er spilað vestur í bæ.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×