Lífið

Sæagra á boðstólum Sægreifans

Sumt að fara af stað? Kjartan mataður af Sæagra.
Sumt að fara af stað? Kjartan mataður af Sæagra.

Kjartan Halldórsson í Sægreifanum á Geirsgötu hefur vakið heimsathygli með humarsúpunni sinni. Í dag kynnir hann til sögunnar nýja súpu, sem hann kallar Sæagra.

„Þetta er orkurík hamingjusúpa. Í henni eru sæbjúgu og ýmislegt annað sem ég gef ekki upp hvað er,“ segir Kjartan. Hann segir Austurlandabúa óða í sæbjúgu og að vissu leyti sé fyrirbærið vannýtt á Íslandi. Sæbjúga telst til skrápdýra, það er að segja, það er hvorki fiskur né gróður. Sæbjúgu eru talin heilnæm, meðal annars góð fyrir húð, augu og þvagfærakerfi. Síðast en ekki síst eru sæbjúgun sögð hafa jákvæð áhrif á kynorku og þaðan kemur nafn súpunnar, Sæagra.

„Dauðir fuglar lifna ekki við þótt þeir fái sér súpu, en ef eitthvað er í gangi á annað borð þá getur sumt farið af stað,“ segir Kjartan og dregur augað í pung.

Hin heimsfræga humarsúpa Sægreifans hefur selst í óhemju magni í gegnum tíðina og verður að sjálfsögðu áfram á boðstólum. Sæagrað er bara viðbót. „Hún verður nokkrum hundraðköllum ódýrari en humarsúpan og ég á fastlega von á að hróður hennar berist jafn víða. Enda er hún svakalega bragðgóð,“ segir Kjartan. - drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.