Lífið

Benni Ólsari vill tíu milljónir

Hann grætur Kompás ekki og vandar umsjónarmönnum ekki kveðjurnar en hann vill tíu milljónir í skaðabætur vegna þáttar um handrukkun.
Hann grætur Kompás ekki og vandar umsjónarmönnum ekki kveðjurnar en hann vill tíu milljónir í skaðabætur vegna þáttar um handrukkun. fréttablaðið/vilhelm

„Þetta mál er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Prófmál og engin furða að þessir menn séu að míga á sig. Hætt að sýna Kompás og allt enda þeir búnir að kúka upp á bak þessir pappakassar,“ segir Benjamín Þór Þorgrímsson – betur þekktur sem Benni Ólsari.

Lögmaður Benna, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hefur lagt fram stefnu og krefst tíu milljóna króna, greiðslu málskostnaðar og vaxta vegna Kompásþáttar sem sýndur var í mars árið 2008. Stefnan er stíluð á Kristin Hrafnsson, Jóhannes Kr. Kristjánsson og Ara Edwald, forstjóra 365. Lögmaður 365, Einar Þór Sverrisson, vinnur nú að greinargerð þar sem stefnunni verður svarað áður en hún er lögð fram. Stefna Benna er upp á tíu síður og er fjallað ítarlega um það þegar fréttaþátturinn Kompás tók upp með földum myndavélum viðskipti Benna og Ragnars Magnússonar sem enduðu með því að Benni gekk í skrokk á Ragnari. Þátturinn fjallaði um handrukkun og bar yfirskriftina „Hnefaréttur“.

Í kærunni er farið nokkrum orðum um fjölmiðlavald, sagt að 365 hafi beitt öllu sínu fjölmiðlaafli til að auglýsa þáttinn sem hafi verið brot á friðhelgi Benna. „Þessari fjárkröfu er mjög í hóf stillt,“ segir Vilhjálmur en í stefnunni segir meðal annars að stefnandi eigi ekki að þurfa að þola að vera „tekinn af lífi án dóms og laga í fjölmiðlum stefndu.“

Mál þetta kemur upp á sérkennilegum tíma því í gær [fimmtudag] var þeim Kristni og Jóhannesi sagt upp störfum og Kompásþátturinn sleginn af. Benni grætur Kompás ekki og vandar umsjónarmönnum reyndar ekki kveðjurnar. „Þeir skutu sig í fótinn með að vera með glæpamann sem píslarvott. Af hverju notuðu þeir ekki Palla saklausa úr Grafarvoginum frekar en stilla glæpamanni dauðans upp gegn mér? Ég veit ekki hvað þeir þykjast vera þessir karlar, vitnandi í 60 minutes og þykjast vera einhverjir voðalegir rannsóknarblaðamenn – þessir snillingar,“ segir Benni. Hann telur aðspurður stefnu sína reyndar ekki tengjast því að þátturinn hafi verið sleginn af.

„Ég náttúrulega fagna því að Benjamín hafi fundið leið siðmenntaðra réttarúrræða telji hann á sér brotið. Og leggi nú fróma hönd á lögbók fremur en að kreppa hnefann,“ segir Kristinn Hrafnsson.

Hann segir stefnu Vilhjálms ótrúlegt skemmtiefni og broslega lesningu: „Að Benni krefjist friðhelgi einkalífs til að geta lúskrað á manni á Hafnarvoginni í Hafnarfirði fyrir allra augum. Menn mæta þessu náttúrulega með yfirvegun í réttarsal en óneitanlega sætir það furðu að maðurinn sem telur alla anga hins „illa“ veldis 365 hafa tekið sig af lífi og skuli svo glaðbeittur ætla að spranga inn á gólf hjá skemmtikröftum stöðvarinnar til að lyfta sér á stall sem hinn geðþekki handrukkari sem hann hefur viðurkennt að vera í samtölum við mig,“ segir Kristinn. En til stóð að Auddi og Sveppi væru með Benna sem sinn fyrsta gest í nýjum frétta- og skemmtiþætti sínum en flautuðu það af á síðustu stundu.

jakob@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.