Tónlist

Hjaltalín spilar á Hróarskeldu

Sigríður Thorlacius og félagar hennar í Hjaltalín hafa bókað sig á Hróarskelduhátíðina í sumar.
Fréttablaðið/Anton
Sigríður Thorlacius og félagar hennar í Hjaltalín hafa bókað sig á Hróarskelduhátíðina í sumar. Fréttablaðið/Anton

„Okkur finnst þetta auðvitað æðislega gaman. Ég hef sjálf aldrei farið og var eiginlega búin að ímynda mér að ég myndi ekki fara úr þessu,“ segir Sigríður Thorlacius, söngkona í Hjaltalín. Hljómsveitin hefur verið bókuð til að koma fram á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku í sumar. Hátíðin fer fram helgina 2.-5. júlí og meðal þekktra sveita sem boðað hafa komu sína eru Coldplay, Madness og Oasis. Ekki liggur fyrir hvenær eða á hvaða sviði Hjaltalín spilar en tónleikarnir verða á aðaldagskrá hátíðarinnar. Nokkur hundruð Íslendingar sækja Hróarskelduhátíðina á hverju ári og þessi tíðindi vega eflaust upp á móti fréttum af háu miðaverði þetta árið vegna efnahagsástandsins.

Fyrsta plata Hjaltalín, Sleepdrunk Seasons, hefur verið gefin út í Bretlandi og víða um Evrópu og hlotið góða dóma. Sveitin hefur verið dugleg við tónleikahald og stefnan er að taka sumarið með trompi. Hjaltalín hefur verið boðið að spila á fjölmörgum tónlistarhátíðum. „Ja, það er alla vega komið gróft plan,“ segir Sigríður. „Hugmyndin er að vera með bækistöðvar í Berlín part úr sumri og vera svo nánast um hverja helgi í einhverjum skemmtilegheitum.“

Þið ætlið semsagt bara að leika ykkur úti í löndum á meðan Íslendingar eru í miðri kreppu?„Reyndar er það nú ekki svo að við eigum í vandræðum með að eyða öllum peningunum okkar. Þetta er nú meira hugsað í sparnaðarskyni, svo við eyðum ekki öllu í ferðalög. Svo snýst nú góða lífið ekki alltaf um peninga.“- hdm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.