Handbolti

Ísland á tvo leikmenn í úrvalsliðinu á HM í Túnis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson var í úrvalsliðinu á HM.
Aron Pálmarsson var í úrvalsliðinu á HM. Mynd/Stefán

Tveir leikmenn íslenska 19 ára landsliðsins í handbolta, Aron Pálmarsson og Ólafur Guðmundsson, voru valdir í úrvalslið heimsmeistaramótsins sem lauk í Túnis í kvöld. Íslenska liðið tapaði fyrir Króatíu í úrslitaleiknum.

Ólafur Guðmundsson var valinn besta vinstri skyttan á HM en hann var þriðji markahæsti leikmaður mótsins með 48 mörk í 7 leikjum. Ólafur skoraði 18 mörk í síðustu tveimur leikjum Íslands á mótinu.

Aron Pálmarsson er valinn í stöðu hægri skyttu en hann lék þó mest sem leikstjórnandi í mótinu. Aron skoraði 30 mörk í mótinu og varð 19. markahæsti leikmaðurinn.

Króatía, Ísland og Túnis eiga öll tvo leikmenn í úrvalsliðinu. Króatíski línumaðurinn Marino Maric og króatíski leikstjórnandinn Vedran Hud eru báðir í liðinu en þeir áttu báðir stórleik í úrslitaleiknum á móti Íslandi.

Úrvalslið HM í Túnis 2009:

Markvörður: Mohamed Sfar, Túnis

Vinstra horn: O. Bounghanmi, Túnis

Vinstri skytta: Ólafur Guðmundsson, Íslandi

Leikstjórnandi: Vedran Hud, Króatíu

Hægri skytta: Aron Pálmarsson, Íslandi

Hægra horn: Matti Zacharisson, Svíþjóð

Línumaður: Marino Maric, Króatíu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×