Handbolti

Stráklingarnir okkar spila um gullið í beinni á RÚV

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Óli Heimisson í leiknum á móti Túnis.
Heimir Óli Heimisson í leiknum á móti Túnis. Mynd/Heimasíða IHF, Michael Heuberger

Úrslitaleikur Íslands og Króatíu um heimsmeistaratitil 19 ára landsliða hefst klukkan 19.30 og verður í beinni útsendingu í sjónvarpinu.

Þetta er söguleg sjónvarpsútsending því þetta er í fyrsta sinn sem er sýnt beint frá unglingalandsleik á stórmóti hér á landi en það má búast við að þjóðin fylgist vel með þegar stráklingarnir okkar taka á hinu frábæra liði Krótata.

Þetta er sjöundi leikur íslenska liðsins á HM í Túnis en liðið hefur unnið fimm af sex leikjum sínum þar á meðal leiki við Frakka, Norðmenn og heimamenn í Túnis.

Króatar hafa unnið alla sex leiki sína á mótinu en þeir unnu Dani í átta liða úrslitum og Svía í undanúrslitum. Króatíska liðið er því að lenda á móti þriðju norðurlandaþjóðinni í röð.

Það eru margir að skila miklu til íslenska liðsins og markaskor liðsins dreifist vel. Fjórir leikmenn liðsins komast inn á topp 40 yfir markahæstu menn mótsins.

Ólafur Guðmundsson (númer 13) er markahæstur hjá íslenska liðinu á mótinu en hann hefur skorað 40 mörk í þessum fimm leikjum. Guðmundur Árni Ólafsson (númer 9) kemur honum næstur með 33 mörk, Ragnar Jóhannsson (númer 18) hefur skorað 28 mörk og fyrirliðinn Aron Pálmarsson (númer 4) er með 26 mörk.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×