Íslenski boltinn

Íris Björk: Þurfum að vera þolinmóðar

Ómar Þorgeirsson skrifar
Katrín Ómarsdóttir skoraði mark KR í kvöld.
Katrín Ómarsdóttir skoraði mark KR í kvöld.

Íris Björk Eysteinsdóttir, annar tveggja þjálfara KR, var svekkt í leikslok eftir 1-4 tap gegn Stjörnunni á KR-vellinum í kvöld en ítrekaði þó að KR-ingar þurfi ekki að örvænta.

„Ég er virkilega ósátt með seinni hálfleikinn hjá okkur í kvöld. Mark númer tvö var frekar óheppilegt og við áttum í raun í basli með að rífa okkur aftur upp eftir það. Við töluðum um það í hálfleik að sýna karakter í seinni hálfleik en það skilaði sér ekki inn á vellinum. Það voru nokkrir leikmenn sem voru að leggja sig fram en það dugar ekki í fótbolta.

Við þurfum hins vegar að vera þolinmóðar því við erum að búa til nýtt lið og það er gríðarlega mikill efniviður hjá okkur. Þetta eru stelpur sem eru að njóta þess að spila hvern einasta leik og þetta sumar er góð reynsla fyrir þær. Auðvitað vill maður samt alltaf sjá KR í toppbaráttunni og við erum að því leyti ekki sáttar með stöðu okkar í deildinni," segir Íris Björk hreinskilin

Íris Björk hrósaði að sama skapi Stjörnunni fyrir góða frammistöðu í kvöld.

„Stjörnustúlkur eru gríðarlega sterkar líkamlega og voru fljótar að refsa okkur þegar við gerðum mistök. Þær byrjuðu rólega en gáfu svo í og þá fannst mér við ekki bregðast nógu vel við því. Þær áttu bara góðan leik og eru náttúrulega komnar að fullu inn í toppbaráttuna," segir Íris Björk.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×