Lífið

Krummi í staðinn fyrir Svölu

Björgvin á æfingu fyrir jólatónleikana sína ásamt hljómsveitarstjóranum Þóri Baldurssyni. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
Björgvin á æfingu fyrir jólatónleikana sína ásamt hljómsveitarstjóranum Þóri Baldurssyni. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
„Þetta er alltaf jafnskemmtilegt og spennandi,“ segir Björgvin Halldórsson.

Árlegir jólatónleikar hans í Laugardalshöll verða haldnir á morgun. Á meðal þeirra sem koma fram auk Björgvins verða Borgardætur, Diddú, Egill Ólafsson, Laddi, Savanna-tríóið og Sigríður og Högni úr Hjaltalín. Dóttir hans, Svala, verður aftur á móti fjarri góðu gamni, enda býr hún í Kaliforníu ásamt félögum sínum í hljómsveitinni Steed Lord. „Hún er reyndar að koma heim um jólin en hún nær ekki þessum tónleikum. Hana langaði æðislega mikið að vera með því henni finnst svo gaman að þessu en Krummi verður bara í staðinn fyrir hana,“ segir Björgvin.

Tónleikarnir í Höllinni verða tvennir og er nánast uppselt á þá báða. „Við reynum að brydda upp á nýjungum í hvert skipti með nýjum flytjendum og nýjum lögum. Ef við værum alltaf með sömu lögin væri þetta minna mál. Við erum alltaf að reyna að toppa sjálfa okkur, bæði í útlitinu og samsetningu á prógramminu, og við erum sérlega ánægð með þetta í ár,“ segir hann.

Efnahagsástandið er erfitt um þessar mundir og hefur það haft sín áhrif á skipulagningu tónleikanna. „Aðföngin hafa hækkað en við erum að reyna að gera þetta sem best úr garði án þess að það komi niður á gæðunum,“ segir Björgvin og tekur fram að miðaverðið sé það sama og fyrir tveimur árum. „Ég er bara í skýjunum með þetta og hlakka mikið til.“ Nánari upplýsingar um tónleikana má finna á síðunni Jolagestir.is. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.