Mexíkóinn Marco Antonio Barrera er drjúgur með sig fyrir bardagann gegn breska ungstirninu Amir Khan í Manchester á laugardaginn.
Hinn 35 ára gamli Barrera er fyrrum heimsmeistari í þremur þyngdarflokkum og afrekaði meðal annars að verða fyrsti maðurinn til að sigra Prince Naseem Hamed í Las Vegas árið 2001.
Barrera á ekki von á að lenda í vandræðum á móti hinum 22 ára gamla Khan, sem hefur tapað aðeins einum bardaga á ferlinum.
"Ég hef heyrt mikið talað um Khan, rétt eins og um Naseem Hamed þegar ég sigraði hann. Þegar ég var á aldri við Khan, var ég þegar búinn að verja heimsmeistaratitilinn sex sinnum og búinn að leggja nokkur stór nöfn," sagði Barrera, sem hlakkar til að mæta Englendingnum unga á heimavelli hans.
"Ég hef ekki barist í Bretlandi í tíu ár, en ég hef gaman af því að mæta ungum boxara á hans eigin heimavelli. Þannig verður það tvöföld ánægja fyrir mig að sigra hann," sagði Barrera, sem hefur unnið 71 bardaga á 20 ára ferli og aðeins tapað sex sinnum fyrir fjórum mismundandi mönnum.