Lífið

Vel heppnað í veðurblíðu

Karlakórinn Fjallabræður við Reykjavíkurtjörn í gær þar sem hann söng Bítlalagið All You Need Is Love.fréttablaðið/gva
Karlakórinn Fjallabræður við Reykjavíkurtjörn í gær þar sem hann söng Bítlalagið All You Need Is Love.fréttablaðið/gva

Karlakórinn Fjallabræður söng við Reykjavíkurtjörn í gær Bítlalagið All You Need Is Love ásamt þátttakendum frá 157 öðrum þjóðum.

Lagið var sungið samtímis við undirspil útsetjarans og kvikmyndatónskáldsins Graeme Revell sem hefur samið tónlist fyrir kvikmyndirnar Sin City og The Saint auk sjónvarpsþáttarins CSI Miami.

„Þetta gekk alveg stórkostlega. Það flugu þyrlur og álftir yfir hausinn á okkur og þetta var ferlega skemmtilegt,“ segir kórstjórinn Halldór Gunnar Pálsson. „Það var góð tilfinning að vita af einhvern veginn öllum heiminum að gera það sama og þú.“

Fiðluleikari Fjallabræðra, Unnur Birna Björnsdóttir, var aðalsöngvarinn í laginu á meðan Fjallabræðurnir sáu um að radda. „Hún hefur einu sinni sungið áður fyrir okkur. Sú hugmynd var bara tekin í gær (sunnudag). Ég hringdi í hana og spurði hvort hún væri ekki til í að syngja fyrir allan heiminn. Hún bara sló til og lét vaða, skellti sér í lopakjól og græjaði þetta.“

Hjörtur Grétarsson hjá framleiðslufyrirtækinu True North, sá um að tæknilega hliðin yrði í lagi við Reykjavíkurtjörnina. „Þetta gekk alveg vonum framar. Veðrið lék við okkur. Þeir æfðu nokkrum sinnum og svo keyrðum við á þetta á réttum tíma,“ segir Hjörtur. „Ég hef ekki heyrt annað en að þetta hafi tekist mjög vel í öllum löndunum. Kollegar okkar í London sem heita Gorgeous héldu utan um þetta.“

Allur ágóði af verkefninu, sem samtökin (RED) Love standa fyrir, rennur til baráttu AIDS í Afríku. Söngurinn frá öllum þátttökuþjóðunum verður klipptur saman í eitt myndband af hinum virta auglýsingaleikstjóra Chris Palmer en áhugasömum er bent á að hægt verður að skoða útkomuna á síðunni Starbucksloveproject.com. freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.