Lífið

Það kraumar í tónlistinni

Dr. Spock í útrásargír enda víkingasveit.
Dr. Spock í útrásargír enda víkingasveit.

Umsóknarferli Kraums fyrir verkefni sem eiga sér stað árið 2010 hófst í gær, á degi íslenskrar tónlistar. Kraumur tónlistarsjóður auglýsir eftir umsóknum fyrir verkefni á sviði íslenskrar tónlistar sem ráðgert er að eigi sér stað á næsta ári. Tónlistarmenn og hljómsveitir úr öllum geirum tónlistar eru hvattir til að sækja um fyrir sín verkefni. Umsóknarferlið er einnig opið fyrir verkefnastjóra og viðburði. Væntanlegum umsækjendum er bent á að kynna sér markmið og samþykktir sjóðsins á heimasíðu hans: www.kraumur.is. Umsóknarferlið hefst hinn 11. desember og lýkur 20. janúar. Umsóknum má skila með tölvupósti eða bréfleiðis.

Kraumur tónlistarsjóður var stofnaður í byrjun árs 2008 af Aurora velgerðarsjóði, og hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem utan. Markmið Kraums er að styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi.

Kraumur hefur komið víða við á fyrstu tveimur starfsárum sínum. Kraumur hefur hrundið af stað og starfrækt eigin verkefni til stuðnings tónleikhaldi innanlands (Innrásin í samvinnu við Rás 2), plötugerð og plötuútgáfu (Kraumslistinn) og sömuleiðis svokölluðum Hljóðverssmiðjum í samvinnu við Músíktilraunir þar sem ungum og upprennandi listamönnum og hljómsveitum gefst kostur á að taka upp undir leiðsögn og fá ráð um næstu skref hjá reyndari listamönnum.

Kraumur hefur einnig stutt og unnið með miklum fjölda listamanna að þeirra eigin verkefnum, haldið námskeið og vinnusmiðjur og komið að hinum ýmsu viðburðum. Meðal stuðningsverkefna Kraums eru Stofutónleikar á Listahátíð í Reykjavík, vinnusmiðjur ungra listamanna á Jazzhátíð Reykjavíkur, Fræðslunámskeið á Tónlistarhátíð unga fólksins og You Are in Control, Tónlistarkynning Víkings Heiðars Ólafssonar og Árna Heimis Ingólfssonar í framhaldsskólum landsins og samstarf við Náttúru­tónleika Bjarkar, Sigur Rósar og Ólafar Arnalds í Laugardal.

Meðal listamanna og hljómsveita sem Kraumur hefur unnið með og stutt við í kringum við ýmis sérverkefni á sviði plötuútgáfu, tónleikahalds og kynningarverkefna erlendis eru; Amiina, Benny Crespo‘s Gang, Bloodgroup, Dikta, Dr. Spock, Celestine, Elfa Rún Kristinsdóttir, FM Belfast, For a Minor Reflection, Helgi Valur, Hjaltalín, Lay Low, Melkorka Ólafsdóttir, Mugison, Morðingjarnir, Momentum, Mógil, Nordic Affect, Njútón, Nögl, Ólöf Arnalds, Ólafur Arnalds, Reykjavík!, Seabear, Sin Fang Bous, Sign, Skakkamanage, Skátar, Sudden Weather Change, Svavar Knútur, Sykur, Trúbatrix, Víkingur Heiðar Ólafsson og fleiri.- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.