Lífið

Smellirnir skiluðu litlu

Ingó og Toggi sömdu stórsmelli síðasta árs, Bahama og Þú komst við hjartað í mér. Á fimmtudaginn fengu þeir borgað fyrir útvarpsspilun ársins 2008 og eru ósáttir við það hvað poppsmellirnir gefa lítið af sér.
Ingó og Toggi sömdu stórsmelli síðasta árs, Bahama og Þú komst við hjartað í mér. Á fimmtudaginn fengu þeir borgað fyrir útvarpsspilun ársins 2008 og eru ósáttir við það hvað poppsmellirnir gefa lítið af sér.

„Ég gef mömmu alltaf mjög flottar jólagjafir, en hún verður kannski aðeins flottari núna. Og svo ætla ég að skella mér á sólarströnd í viku fyrir peninginn. Ég var búinn að ákveða það. Fyrst ég grísaði á að semja þetta lag var ég búinn að ákveða að nýta innkomuna fyrir það í það sem lagið fjallar um," segir Ingó í Veðurguðunum, sem líkt og aðrir lagahöfundar fékk STEF-greiðslur útborgaðar á fimmtudaginn. Upphæðin sem nú er greidd út er fyrir útvarpsspilun árið 2008. Þá tröllreið lagið Bahama öllu. Ingó samdi lag og texta og var að auki að fá greitt fyrir lagið Drífu, sem kom í kjölfar Bahama og varð líka vinsælt.

Ingó er þó ekki nema sæmilega sáttur og segir upphæðina fyrir bæði lögin lága. „Upphæðin stóðst engan veginn væntingar og var töluverð vonbrigði," segir hann.

„Maður var aðeins búinn að pæla í þessu. Ég ætlaði að eyða svo og svo miklu í jólagjafir og leggja hitt til hliðar, en var svo sem ekkert búinn að eyða þessu fyrir fram. Ég var búinn að heyra í lagahöfundum sem sögðu að ég fengi svakaleg STEF-gjöld fyrir Bahama og var því orðinn nokkuð spenntur. Lagið hefur gefið mér ágætis tekjur fyrir utan þetta svo ég er svo sem ekkert að kvarta. Ég þarf nú samt að athuga þetta mál. Ég heyrði í lagahöfundi sem fékk meira en ég fékk fyrir Bahama fyrir lag sem var bara þokkalega vinsælt í fyrra. Ég set því stórt spurningarmerki við þetta allt saman og þarf að tékka á þessu niðri í STEF."

Hinn stórsmellur síðasta árs var að sjálfsögðu Þú komst við hjartað í mér í flutningi Hjaltalín. Textinn er eftir Pál Óskar, en lagið sömdu Toggi (Þorgrímur Haraldsson) og Sveinbjörn Bjarki Jónsson. STEF-greiðslurnar fyrir hina ofurvinsælu útgáfu Hjaltalín renna á fjóra staði. Meðlimir Hjaltalín fá tvo punkta af tólf fyrir útsetninguna, Palli fær þrjá punkta, Bjarki tvo og Toggi fimm.

Toggi er jafnvel fúlari yfir upphæð STEF-greiðslunnar en Ingó. „Maður er svo sem vanur því að vera ekki að moka inn peningum á þessu, en núna hélt ég að ég gæti ráðstafað einhverju af þessu og kannski átt einhvern afgang. En nei nei, það er aldrei þannig," segir Toggi og dæsir.

Hann var í bílnum sínum þegar honum var sagt frá upphæð STEF-greiðslunnar.

„Ég held að stýrinu hafi aldrei verið misþyrmt jafn harkalega áður," segir hann, flissar og bætir við: „Ég gæti svo sem skroppið á ströndina með Ingó, en ég var bara búinn að ráðstafa þessu í annað."

Toggi ætlar að skoða málið ofan í kjölinn með STEF og vonast eftir leiðréttingu. „Það getur svo sem vel verið að þetta sé rétt reiknað hjá þeim," segir hann og bætir við: „En mér finnst bara mjög skrítið og asnalegt að maður semji vinsælasta lag ársins og sé að fá fyrir það sirka mánaðarlaun lagerstarfsmanns hjá Ísingu eða eitthvað. Þetta er út í hött!"

drgunni@frettabladid.is.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.