Lífið

Ugla fór á kostum

Ugla Egilsdóttir vakti mikla lukku með uppistandi sínu á Næsta bar á miðvikudaginn var.
Fréttablaðið/stefán
Ugla Egilsdóttir vakti mikla lukku með uppistandi sínu á Næsta bar á miðvikudaginn var. Fréttablaðið/stefán Mynd/Stefán Karlsson

Nokkrar vinkonur tóku sig til og héldu fyrsta stelpu-uppistandið á Næsta bar á miðvikudaginn var. Á meðal þeirra sem tróðu upp var Ugla Egilsdóttir leikkona, sem var síðust á svið en vakti rífandi lukku meðal gesta.

„Ég held að við höfum allar haft gaman af uppistandi nokkuð lengi, mér finnst til dæmis Sarah Silverman mjög skemmtilegur uppistandari, þannig að þegar Nadia fór að skipuleggja þetta var ekki hægt að slá hendinni á móti því," segir Ugla. Aðspurð segist hún ekki hafa æft sig eins vel fyrir kvöldið og hún hafi ætlað sér og þess vegna fengið vinkonu sína til að taka að sér starf hvísl­ara.

„Ég var ekki búin að æfa mig nógu vel. Ég ætlaði að vakna klukkan níu um morguninn og læra þetta allt utan að, en ég svaf yfir mig og þurfti að mæta beint í vinnu þannig að ég náði ekki að læra þetta nógu vel. Ég ákvað þá að nota vinkonu mína sem hvíslara og innlima það í atriðið," útskýrir Ugla og segist ekki hafa átt í vandræðum með að finna umræðuefni heldur hafi hana fyrst og fremst langað að segja aulabrandara.

Viðburðurinn var mjög vel sóttur og var staðurinn troðinn út úr dyrum. Ugla segir að það hafi komið henni á óvart hversu margir létu sjá sig. „Þetta var mjög skemmtilegt og gekk mjög vel. Ég hélt að maður þyrfti að bjóða vinum og ættingjum til að fylla staðinn þannig að það kom mér á óvart hversu stórt í sniðum þetta varð."

Því má með sanni segja að stúlkunum hafi tekist ætlunarverk sitt og sannað það í eitt skipti fyrir öll að stelpur eru víst fyndnar.

- sm










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.