Fastir pennar

Bíll og svanni

Þorvaldur Gylfason skrifar

Tæplega tvítug stúlka sást á ferli með karlmanni. Þá komu sjö karlar aðvífandi og nauðguðu þeim báðum. Stúlkan, sem er gift, kærði sjömenningana. Hún var dæmd til að þola 90 vandarhögg fyrir að vera ein á ferli með óskyldum karlmanni, og hann líka. Lögmaður beggja áfrýjaði dómnum. Þá var dómurinn þyngdur í 200 vandarhögg og sex mánaða fangelsi og lögmaðurinn sviptur málflutningsréttindum. Nauðgararnir fengu fimm til sjö ár. Málið fór fyrir hæstarétt. Þetta var 2006 í Sádi-Arabíu.

Dómsmálaráðuneytið lét þau boð út ganga, að stúlkan hefði gert sig seka um ósiðlegt athæfi og hafi sézt nakin í bíl fyrir nauðgunina. Lögmaður hennar sagði hvort tveggja rangt. Ráðuneytið kærði stúlkuna ekki fyrir hjúskaparbrot, sem er dauðasök í Sádi-Arabíu, ef fjórir karlkyns sjónarvottar bera vitni um samræðið. Sumum dómurum þóttu dómarnir vægir. Einn sagðist mundu hafa dæmt stúlkuna, kunningja hennar og nauðgarana sjö til dauða öll með tölu, hefði málið komið til kasta hans. Alþjóðleg mannréttindasamtök, þar á meðal Human Rights Watch, létu málið til sín taka. Þannig komst það á síður heimsblaðanna. Abdúlla konungur veitti báðum fórnarlömbum sakaruppgjöf 2007.



Hjálpin barst að utan

Hugurinn hvarflar til Suður-Afríku. Aðskilnaðarstefna hvíta minnihlutans þar vakti um sína daga svo djúpa andúð umheimsins, að aðskilnaðarlögin voru felld úr gildi 1991 undir þungum þrýstingi utan að, þar á meðal viðskiptaþvingunum. Svarti meirihlutinn náði völdum í almennum kosningum 1994. Nú er hörundslitur hættur að skipta máli í Suður-Afríku, en kynferði heldur áfram að skipta sköpum í Sádi-Arabíu.

Konur þar hafa ekki kosningarrétt, mega ekki aka bíl eða hjóla, mega ekki fara á spítala eða ferðast án skriflegs leyfis karlmanns úr fjölskyldunni, og þeim er meinaður aðgangur að ýmsum störfum. (Þær mega stýra flugvélum, en þá þarf að aka þeim út á flugvöll.) Konum í Sádi-Arabíu eru enn meinuð ýmis mannréttindi, sem blökkumönnum voru áður meinuð í Suður-Afríku. Samt þarf Sádi-Arabía ekki að beygja sig undir andúð umheimsins eins og Suður-Afríka þurfti að gera. Hver er munurinn? Olía, býst ég við.



Trúarbrögð?

Sumir Sádar skýla sér á bak við trúarbrögð með því að þykjast sækja þangað umboð sitt til að kúga konur. En það eru falsrök eins og ráða má af því, að kvenréttindi eru í þokkalegu horfi í ýmsum öðrum löndum múslíma svo sem Indónesíu og Malasíu. Sádar hafa búið sér til eigin túlkun á kenningum spámannsins, en hún á lítið skylt við boðskap kóransins. Í Kúveit, sem er næsti bær við Sádi-Arabíu, aka konur bílum eins og ekkert sé. Ég var þar um daginn og átti lausa stund part úr degi og spurði dyravörð hótelsins, hvað væri hægt að sjá og gera í borginni á einum eftirmiðdegi. Hann sagði: Það er bannað að dansa í Kúveit.

Ég hafði ekki verið að hugsa um að fá mér snúning þennan dagpart, svo að tilkynningin kom ekki að sök. Dyravörðurinn skýrði málið nánar: Tónlist fær ekki að heyrast á mannamótum, því að fólk gæti brostið í dans. Landið er vínlaust að kalla og barlaust. Bensín kostar sama og ekki neitt. Gangandi fólk fór sömu leið og geirfuglinn. Egyptaland, Sýrland og Sameinuðu furstadæmin eru frjálslegri í næsta nágrenni og einnig Barein, Jórdanía, Katar og Óman: þar fá konur að keyra bíla, kjósa og sitja í ríkisstjórn. Sádi-Arabía er annar heimur. Þar fórust 15 skólastúlkur í eldsvoða 2002, þar eð þær báru ekki slæður og svartar skikkjur, sem sádi-arabískum konum er skylt að klæðast á almannafæri, svo að siðferðislögreglan taldi sér ekki fært að hleypa þeim út úr brennandi húsi.



Frelsi í sjónmáli?Samt hefur hagur kvenna í Sádi-Arabíu vænkazt að ýmsu leyti. Nú eignast þær að jafnaði þrjú til fjögur börn hver, ekki sex eins og þær gerðu 1990. Stúlkur sækja skóla til jafns við pilta á öllum skólastigum. Enn er ólæsi meðal kvenna þó meira en meðal karla, en munurinn fer minnkandi. Fimmta hver kona í Sádi-Arabíu vinnur utan heimilis á móti þriðju hverri konu í Tyrklandi og Túnis, þar sem konur eru frjálsar og eignast tvö börn hver að meðaltali. Arabalöndin fara yfirleitt ekki vel með verðmætt vinnuafl. Sádi-Arabía er sér á parti, harðsvíraðasta einræðisríki heims. Konungsfjölskyldan veit, að frjálsar kosningar myndu svipta hana aðganginum að olíulindunum.






×