Þó svo Birgir Leifur Hafþórsson sé að gera frábæra hluti á opna ítalska meistaramótinu í Tórínó þá virðist hann eiga nokkuð í land með að skapa sér nafn í golfheiminum.
Í það minnsta hjá Sky-fréttastofunni.
Í frétt Sky í kvöld um opna ítalska mótið fylgir með stöðutafla og þar er Birgir Leifur sagður vera Norðmaður. Ekki veit ég hversu kátur Skagamaðurinn er með það.
Reyndar stendur í greininni að Birgir Leifur sé Íslendingur en þær upplýsingar virðast eitthvað hafa skolast til þegar kom að því að búa til stöðutöfluna.
Birgir Leifur heldur vonandi áfram að spila frábærlega á morgun og sjá til þess í leiðinni að golfheimurinn viti að hann sé Íslendingur en ekki Norðmaður.