Körfubolti

Sigurður til Njarðvíkur: Valur vék ekki fyrir mér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Ingimundarson.
Sigurður Ingimundarson. Mynd/Stefán

Sigurður Ingimundarson var í dag ráðinn þjálfari körfuboltaliðs Njarðvíkur en í gær var tilkynnt að Valur, bróðir Sigurðar, myndi hætta þjálfun liðsins.

Sigurður var þjálfari Keflavíkur til margra ára en fór til Svíþjóðar í sumar þar sem hann tók við þjálfun Solna Vikings. Hann hætti hjá því félagi í síðustu viku.

„Ég átti ekki von á því fyrir stuttu síðan að ég myndi koma aftur til Íslands og taka við Njarðvík. En stundum atvikast málin svona. Ég ákvað að koma heim og þá kom þetta upp," sagði Sigurður.

Hann segir að Valur hefði ekki hætt hjá Njarðvík svo hann gæti tekið við liðinu. „Það er að sjálfsögðu ekki þannig enda væri það fáránlegt. Ég skil þó vel að einhver kynni að hafa hoppað á þá kenningu en það er þó alls ekki þannig. Þetta var einfaldlega röð tilviljana."

Sigurður þekkir vel til leikmanna Njarðvíkur. „Ég hef þjálfað flesta þessa stráka, bæði í landsliðinu og í Íþróttaakademíunni. Þetta er því ekkert svo ókunnugt fyrir mig."

Njarðvík tapaði í gær fyrir Grindavík í úrslitum Powerade-bikarkeppni karla og flestir sem reikna með því að liðið verði sterkt í vetur. Sigurður ætlar þó að bíða með allar yfirlýsingar.

„Ég ætla nú að mæta á eina æfingu áður en ég fer að tjá mig um eitthvað slíkt," sagði hann í léttum dúr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×