Fastir pennar

Fylgifiskurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar

Sviptingarleið ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum er sett fram í nafni réttlætisins. Hvernig má vera að ráðstöfun undir slíku formerki sé efnahagslega hættuleg eins og fullyrt er? Allir hljóta að viðurkenna að efnahagslegur ávinningur sem ekki byggir á réttlátum leikreglum er óverjanlegur.

Í stjórnmálaskylmingum undangenginna ára hefur sá málflutningur sigrað sem tengir núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi við ranglæti. Af sjálfu leiðir að þrír fjórðu hlutar þjóðarinnar hafa í skoðanakönnunum lýst andstöðu við það.

Í því ljósi hefur ríkisstjórnin ákveðið að svipta smábátasjómenn og útvegsmenn veiðiheimildum á tuttugu árum. Þar um er stefnan skýr.

Ríkisstjórnin á hins vegar engin svör þear spurt er hvaða skipulag á að koma í staðinn.

Það þýðir að ríkisstjórnin getur ekki sagt í hverju réttlætið er fólgið þó að hún telji sig vita hvar ranglætið liggur. Þetta er ekki sagt ríkisstjórninni til hnjóðs. Í meira en tvo áratugi hefur engum tekist að setja fram hugmyndir um fiskveiðistjórnun sem meirihluti þjóðarinnar gæti sammælst um að væru réttlátari en núverandi kerfi.

Þessi veruleiki hlýtur að kveikja þá spurningu hvort skynsamleg rök standi til að viðhalda þeirri svart/hvítu skilgreiningu á réttlæti og ranglæti sem ráðið hefur ríkjum í sjávarútvegsumræðunni. Eins mikilvægt og það er að stjórnmálaákvarðanir byggist á réttlæti stendur heilbrigðri stjórnmálaumræðu ógn af hinu þegar réttlætis­hugtakið er misnotað.

Það sem verra er. Misnotkun grundvallarhugtaka getur leitt af sér óskynsamlegar ákvarðanir. Þar stendur sviptingarstefnan eins og hnífurinn í kúnni. Óréttlætið í sjávarútveginum er ekki meira en það að þeir héldu takmörkuðum veiðirétti sem stundað höfðu sjóinn þegar kerfið var lögleitt. Um leið var reynt að tryggja þjóðhagslega hagkvæmni með frjálsum viðskiptum eins og í öðrum atvinnugreinum.

Fiskistofnarnir eru auðlind sem lýtur nýtingartakmörkunum. Fyrir vikið verður aðgangur að henni aldrei óheftur. Þeir sem halda því fram að til séu lausnir sem tryggi að fleiri geti stundað sjóinn og atvinnu megi skapa í fleiri byggðum eru að segja þjóðinni ósatt þó að þeir tali að eigin áliti í nafni réttlætisins.Ósannindi eru vondur fylgifiskur í stjórnmálaumræðu.

Uppboð á aflaheimildum mun ekki tryggja vinnu í fleiri sjávarplássum. Úthlutun aflaheimilda eftir snotru hjartalagi stjórnmálamanna mun því aðeins færa litlum sjávarplássum meiri fisk að hann verði tekinn frá öðrum. Munu Vestmannaeyingar og Akureyringar fallast á að réttlætið fáist á þann veg? Grímseyingar hafa þegar hafnað réttlæti á þessum forsendum.

Ákvörðun um sviptingu veiðiheimilda án þess að fyrir liggi hvað á að koma í staðinn setur rekstur sjávarútvegsins eðlilega í uppnám. Það þýðir að í atvinnugreininni sem endurreisn efnahagslífsins á að byggjast á fara öll fjárfestingaráform í frost. Við stöðnunina bætist þetta: Þegar veð fyrir áhvílandi lánum hverfa hrynja fyrirtækin misfljótt eftir því hversu sterkir innviðir þeirra eru. Það þarf ekki hagfræðinga til að sjá þetta.

Kjarni málsins er þessi: Glapræði er að setja rekstur sjávarútvegsins í uppnám þegar þörfin hefur ekki í annan tíma verið brýnni fyrir hagnað sem orðið getur uppspretta nýrra fjárfestinga og atvinnusköpunar á öðrum sviðum. Fylgifiskurinn endurspeglast í lakari lífskjörum en ella. Hvaða réttlæti er í því?








×