Körfubolti

Jón Arnór með 23 stoðsendingar í fyrstu tveimur leikjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson að gefa eina af 23 stoðsendingum sínum.
Jón Arnór Stefánsson að gefa eina af 23 stoðsendingum sínum. Mynd/Daníel

Jón Arnór Stefánsson hefur oft verið meira áberandi í stigaskorun KR-liðsins en í fyrstu tveimur leikjunum á móti Grindavík í lokaúrslitum Iceland Express deild karla. Þriðji leikurinn hefst klukkan 19.15 í DHL-Höllinni í kvöld.

Jón Arnór hefur skorað samtals 31 stig í fyrstu tveimur leikjunum eða 15,5 að meðaltali í leik. Hann skoraði 28,7 stig að meðaltali í leik í einvíginu á móti Keflavík.

Jón Arnór tók 17,3 skot að meðaltali í Keflavíkureinvíginu og fékk 24 víti í þremur leikjum en hefur aðeins tekið 12 skot að meðaltali og fengið samtals 9 víti í tveimur leikjum á móti Grindavík.

Jón Arnór hefur hinsvegar verið einstaklega duglegur að leika félaga sína uppi en hann hefur alls gefið 23 stoðsendingar í þessum tveimur fyrstu leikjum. Jón Arnór hefur því aðeins skoti einu sinni oftar á körfuna en hann hefur átt stoðsendingu á félaga sína.

Jón Arnór hefur átt flestar stoðsendingar á Fannar Ólafsson eða 8 en hann hefur átt 7 stoðsendingar á Jason Dourisseau og 5 á Helga Má Magnússon. Jón Arnór hefur átta 19 af 23 stoðsendingum sínum fyrir tveggja stiga körfur og 11 þeirra hafa verið fyrir sniðskot eða troðslur.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×