Lífið

Skoðar ófrjósemi karla

KOmin heim Sigríður Dögg Arnardóttir stundaði meistaranám í kynfræði í Perth. Hún segir ekki algilt að konur séu með G-blett og að lítið hafi verið fjallað um áhrif ófrjósemi á íslenska karlmenn.
KOmin heim Sigríður Dögg Arnardóttir stundaði meistaranám í kynfræði í Perth. Hún segir ekki algilt að konur séu með G-blett og að lítið hafi verið fjallað um áhrif ófrjósemi á íslenska karlmenn.

Sigríður Dögg Arnardóttir hefur stundað meistaranám í kynfræði við Curtin-háskólann í Perth í Ástralíu undanfarið ár. Samhliða náminu hefur hún haldið úti bloggsíðu um námsefnið þar sem hún fjallar um kynlíf og tengd mál á hispurslausan hátt.

Sigríður Dögg flutti heim fyrir stuttu og mun dvelja hér á meðan hún skrifar lokaritgerð sína, auk þess sem hún tekur meðal annars að sér kynfræðslu í skólum. Meistararitgerð Sigríðar Daggar mun fjalla um áhrif ófrjósemi á íslenska karlmenn, sem hefur að hennar sögn lítið verið fjallað um. „Flestar rannsóknir einblína á áhrif ófrjósemi á konur, en áhrif þess á karlmenn hafa lítið verið rannsökuð. Ég hef verið að ráðfæra mig bæði við sálfræðinga og lækna hér heima auk þess sem ég er með leiðbeinanda úti í skólanum í Perth."

Samhliða ritgerðarskrifum mun hún taka að sér að halda fyrirlestra um kynlíf og tengd málefni og nýverið hélt hún slíkan fyrirlestur fyrir stúlkur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. „Mér fannst þetta ótrúlega gaman og það er magnað að sjá hversu ólíka sýn þessar stúlkur höfðu á kynlíf. Þær hugsuðu meira um hvernig ætti að fullnægja karlmanni en hvernig þær ættu að fullnægja sjálfri sér. Við spjölluðum einnig mikið um saflát kvenna og G-blettinn, en það hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið," segir Sigríður Dögg og bætir við að hún hafi orðið vör við mikinn áhuga fólks á efnum tengdum kynlífi.

Hún segist vera bókuð til að koma fram á karlakvöldi á næstunni auk þess sem hún mun vera með innlegg í sjónvarpsþætti. „Það er augljóst að það vantar ekki áhugann hjá landanum og það er mjög fjölbreyttur hópur fólks sem deilir þessum áhuga," segir Sigríður Dögg að lokum.

Áhugasamir geta nálgast Sigríði Dögg í gegnum vefsíðu hennar www.siggadogg.is.

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.