Körfubolti

Jón Arnar: Við eigum að geta betur en þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnar Ingvarsson, þjálfari ÍR.
Jón Arnar Ingvarsson, þjálfari ÍR. Mynd/Daníel
Jón Arnar Ingvarsson, þjálfari ÍR var að sjálfsögðu ekki ánægður eftir 20 stiga tap á móti Snæfelli í kvöld. ÍR missti leikinn algjörlega frá sér á þriggja mínútna kafla í þriðja leikhluta.

„Við misstum aðeins einbeitinguna. Þeir voru átta til tíu stigum á undan okkur en svo slökuðum við aðeins á og þeir settu nokkra feitar körfur ofan í sem afgreiddu málið," sagði Jón Arnar.

„Þetta var mjög köflótt hjá okkur. Það voru ágætir kaflar en svo lélegir kaflar inn á milli þeirra. Ég er að sjálfsögðu ekki ánægður með þetta. Ég held að við eigum að geta betur en þetta," sagði Jón Arnar.

„Við erum að reyna að þétta þetta saman og gera þetta að alvöru liði. Ég er ekki ánægður með síðustu tvo leiki þar sem við höfum ekki verið nægilega klárir i þessi stærri lið," sagði Jón Arnar en liðið tapaði með stigum á móti Keflavík í leiknum á undan.

„Varnarleikurinn er ekki nógu stöðugur hjá okkur. Við náum smá rispum en missum síðan einbeitinguna þess á milli. Það dugar ekki á móti þessum betri liðum," sagði Jón Arnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×