Viðskipti innlent

Lesblindur tollvörður klúðraði kaupunum á Newcastle

Kaup Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á breska fótboltaliðinu Newcastle United fóru út um þúfur þegar fréttir af kaupunum láku. Samningnum fylgdi loforð um þagmælsku en sagan komst á kreik þegar lesblindur tollvörður á Reykjavíkurflugvelli las Owner í stað Owen af Newcastle treyju sem Jón Ásgeir klæddist.

Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri Singer & Friedlander, gefur í næstu viku út bókina Ævintýraeyjan - uppgangur og endalok fjármálaveldis. Í bókinni eru samningaviðræðum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Mike Ashley eiganda Newcastle United lýst.

Ármann segir að Kaupþing hafi blandast í málið vegna persónulegra kynna hans við Ashley. Honum fannst viðræðurnar við Jón Ásgeir hafa dregist á langinn, var orðinn gramur og vildi slíta viðræðunum. Ármann var þá staddur á eynni Sardínu og Ashley líka.

Jón Ásgeir var aftur á móti á St. Tropez og varð það úr að þeir tveir flugu þangað á einkaþotu til að hitta Jón Ásgeir. Þar náðist munnlegt samkomulag um meginatriði samningsins. Ashley lagði á það mikla áherslu að hann myndi samstundis hætta við ef eitthvað læki út um samninginn.

Nokkrum vikum síðar flaug Jón Ásgeir til Íslands á einkaþotu sinni með viðskiptafélaga sínum Pálma Haraldssyni. Þegar þeir yfirgáfu þotuna á Reykjavíkurflugvelli voru þeir báðir klæddir Newcastle treyjum. Þegar þeir fóru í gegnum tollinn töluðu þeir hátt og skýrt um samninginn og einn tollvarðanna lét dagblöðin vita.

Sagt var að aftan á treyju Jóns Ásgeirs hefði staðið owner - eða eigandi. Tollvörðurinn reyndis hinsvegar lesblindur því í raun stóð Owen sem var þekktasti leikmaður félagsins þá. Pálmi vildi aldrei staðfesta fréttirnar en Jón Ásgeir neitaði þeim hinsvegar. Haft var eftir á honum á Vísi að hann hefði lofað móður sinni að kaupa aldrei fótboltalið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×